Siglufjarðarpistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað. Síðasti pistill héðan var 22. september 2018. Í dag er aftur komið að Siglufirði.

Þar segir:

 • Í lok árs 2018 voru alls 45 án atvinnu í Fjallabyggð, 32 karlar og 13 konur. Þetta má lesa úr gögnum frá Vinnumálastofnun. Íbúum fækkaði um sjö eða um 0,3% á síðasta ári, voru 2.004 hinn 1. desember síðastliðinn. Það sem af er árinu hefur fjölgað og stóð talan 3. janúar í 2.008.
 • Sólberg ÓF 1 varð aflahæst íslenskra frystiskipa á síðasta ári. Afli varð 12.450 tonn af óslægðum fiski í alls tólf löndunum og aflaverðmætið um 3.800 milljónir króna.
 • Átján útskriftarnemar úr Listaháskóla Íslands dvöldu í Siglufirði í byrjun árs á vegum Alþýðuhússins. Unnu þeir að fjölbreyttum verkefnum undir handleiðslu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur og Sindra Leifssonar ásamt því að kynnast heimamönnum og menningarstarfsemi í gamla síldarbænum og annars staðar á Eyjafjarðarsvæðinu.
 • Tvíhliða samskipti Íslands og Finnlands, málefni norðurslóða, Norðurlandasamstarfið, Evrópumál og öryggis- og varnarmál voru á meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, á fundi þeirra 14. janúar sem fram fór á Síldarminjasafninu. Soini, sem var staddur hér á landi í vinnuheimsókn, kynnti sér jafnframt atvinnulíf og starfsemi fyrirtækja á Tröllaskaga.
 • Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkir rekstur Ljóðaseturs Íslands um 1.200.000 kr. á árinu. Það er töluvert hærri fjárhæð en sveitarfélagið leggur af mörkum þangað, sem er einungis 150.000 kr.
 • Samningur hefur verið gerður við Tröppu ráðgjöf ehf. um sérfræðiráðgjöf við Grunnskóla Fjallabyggðar. Unnið verður eftir sýn um framúrskarandi skóla þar sem gert er ráð fyrir að ná árangri umfram væntingar. Áhersla verður lögð á fjölbreytta kennsluhætti.
 • Um 40 iðkendur Skíðafélags Siglufjarðar, Skíðaborgar, (SSS) og aðstandendur þeirra héldu í æfingaferð til Neukirchen í Zell am See í vesturhluta Austurríkis í janúar og dvöldu þar í tæpan hálfan mánuð.
 • JE vélaverkstæði á Siglufirði færði nýverið málmiðnaðarbraut VMA að gjöf plasma-skurðarvél. Það er ómetanlegt fyrir skólann að fá slíkan stuðning fyrirtækis í greininni, sagði Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA í þakkarávarpi og undir það tóku aðrir kennarar við málmiðnaðarbraut VMA.
 • Unglingahljómsveitin Ronja og ræningjarnir, fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Neon í Fjallabyggð, var á meðal þeirra sem komust í úrslit NorðurOrg í lok janúar og fer því í lokakeppni Samfés sem haldin verður í Laugardagshöll seinnipartinn í mars.
 • Alls eru 39 komur ellefu farþegaskipa áætlaðar til Siglufjarðar á þessu ári, frá og með 14. maí til 20. september. Með þeim koma 7.925 farþegar. Er það sami fjöldi skipa og á síðasta ári en töluverð fjölgun farþega þar sem fleiri stærri skip eru áætluð í ár en í fyrra. Fjöldi skipakoma er þó minni í ár en á síðasta ári en þá voru þær 42. Fyrsta farþegaskip ársins, Ocean Diamond, kemur þann 14. maí.
 • Salthúsið er að taka á sig endanlega mynd. Innan skamms verður gert hlé á framkvæmdunum sem staðið hafa undanfarið og haldið áfram í haust.  Á neðri hæð hússins hafa allir milliveggir verið settir upp, búið er að leggja rafmagn og einangra alla útveggi og stefnt er að því að taka varðveislurými á efri hæð þess í notkun um mitt ár. Unnið er að hönnun sýningar þar. „Veturinn í síldarbænum“ er vinnuheiti hennar.Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
  Fylgja: Úr Morgunblaði dagsins.
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is