Siglufjarðarpistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað og hefur undirritaður reynt að byrja hverju sinni þar sem frá var horfið. Þann 4. janúar og 10. september 2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012, 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember 2013 var komið að Siglufirði. Einnig 17. maí og 15. nóvember 2014, sem og 21. mars og 24. október 2015, 19. mars og 1. október 2016. Og svo í dag.

Þar segir:

  • Umferð um Héðinsfjarðargöng jókst um rúm 11% milli áranna 2015 og 2016 og mældist 723 ökutæki á sólarhring, samkvæmt upplýsingum frá Friðleifi Inga Brynjarssyni hjá Vegagerðinni á Akureyri. Er þá miðað við meðalumferð á dag yfir árið (ÁDU, ársdagsumferð). Vetrarumferðin (VDU) jókst um tæp 14% en sumarumferðin (SDU) um tæp 9%. Þetta er fyrsta árið sem meira en 700 bílar fara um göngin á dag en áður en ráðist var í gerð Héðinsfjarðarganga var áætlað að umferðin yrði 350 bílar á dag að meðaltali allt árið, og þótti sumum það of bjartsýn spá. Umferð hefur nú aukist að jafnaði um 6% á ári frá opnun ganganna. Mest er ekið um þau í júlí og að jafnaði á föstudögum.
  • Og enn er slegið met í heimsóknum á Síldarminjasafnið, eins og lesa má um á heimasíðu þess. Á nýliðnu ári sóttu 25.000 manns safnið heim. Um er að ræða tæplega 15% aukningu frá fyrra ári auk þess sem erlendum gestum fjölgaði töluvert, en þeir eru um 60% af heildargestafjölda. Samkvæmt gestaskráningu hafa alls um 250.000 manns heimsótt safnið frá árinu 1994.
  • Minningu Gústa guðsmanns er haldið á lofti í einni byggingu umrædds safns, Bátahúsinu; þar í beitningaskúr er sýnd heimildarmynd um hann og þar stendur söfnunarkútur þar sem gestum er frjálst að leggja eitthvað af mörkum til ABC barnahjálpar og viðhalda þannig hjálparstarfi guðsmannsins, sem fæddur var árið 1897 í Hvammi í Dýrafirði en lést árið 1985 á Siglufirði. Árssöfnunin 2016 nam 25.599 krónum. Frá árinu 2013 hafa safnast rúmlega 125.000 kr. sem hafa runnið óskiptar til ABC í nafni Gústa.
  • Laugardaginn 14. janúar síðastliðinn kom nýr bátur, Oddur á Nesi SI 76, til heimahafnar í Siglufirði. Hann var smíðaður á Akureyri, hjá skipasmíðastöðinni Seig, og er tæpir 12 m að lengd og 5,6 m að breidd. Eigendur eru hjónin Freyr Steinar Gunnlaugsson og Arndís Erla Jónsdóttir, en Freyr er annálaður fiskimaður eins og hann á ættir til. Báturinn mun stunda veiðar með balalínu.
  • Þann 20. janúar var kynntur til sögunnar í Brugghúsi Seguls 67 nýr siglfirskur þorrabjór, sem þeir hafa bruggað í sameiningu Marteinn B. Haraldsson og Þórður Birgisson. Sá er í IPA (India Pale Ale) flokki.
  • Arnfinna Björnsdóttir er bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2017. Útnefningin fór fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði miðvikudaginn 25. janúar.
  • Íslenska gámafélagið hefur beðist velvirðingar á atviki þar sem flokkað sorp og óflokkað var losað í einn og sama sorphirðubílinn í Fjallabyggð á dögunum. Ábendingar íbúa urðu til þess að sveitarfélagið hafði samband við forsvarsmenn félagsins vegna þessa. Íslenska gámafélagið segist hafa farið yfir málið og komið í veg fyrir að þetta gerist aftur.
  • Þann 8. febrúar óskaði Hafnarsjóður Fjallabyggðar eftir tilboðum í áframhaldandi vinnu við Hafnarbryggjuna á Siglufirði, en sem kunnugt er var hún stækkuð mjög og lagfærð á síðasta ári og endurvígð 30. september. Þá var innsiglingin að Siglufjarðarhöfn og einnig hluti hafnarinnar dýpkað niður í – 9,0 metra. Að þessu sinni verða helstu verkþættir þeir að jafna yfirborð undir þekju og malbik, 7.200 m2, leggja frárennslislagnir, um 200 m, steypa þekju, um 3.600 m2, og svo að malbika bryggjuna, um 3.600 m2. Verkinu á að vera lokið eigi síðar en 31. ágúst á þessu ári.
  • Sex ólík menn­ing­ar­verk­efni á lands­byggðinni hafa verið val­in á Eyr­ar­rós­arlist­ann 2017 og eiga þar með mögu­leika á að hljóta Eyr­ar­rós­ina í ár og er Alþýðuhúsið á Sigluf­irði undir stjórn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur eitt af þeim. En Aðalheiður er einmitt dóttir Arnfinnu Björnsdóttur, bæjarlistamanns Fjallabyggðar 2017. Alls bár­ust 37 um­sókn­ir um Eyr­ar­rós­ina, hvaðanæva að af land­inu. Eyr­ar­rós­in er viður­kenn­ing sem veitt er framúrsk­ar­andi menn­ing­ar­verk­efni utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hún bein­ir sjón­um að og hvet­ur til menn­ing­ar­legr­ar fjöl­breytni, ný­sköp­un­ar og upp­bygg­ing­ar á sviði menn­ing­ar og lista. Að verðlaun­un­um standa Byggðastofn­un, Flug­fé­lag Íslands og Lista­hátíð í Reykja­vík.
  • Rammi hf. er með nýtt frystiskip í smíðum í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, eins og mörgum lesendum er kunnugt. Það ber heitið Sólberg ÓF 1. Um síðustu helgi var prufusigling og tókst hún vel. Skipið er 80 m langt og 15,4 m breitt og m.a. búið mjölverksmiðju og lýsisbræðslu, sem merkir að allur afli er unnin um borð frá a-ö, ekkert fer útbyrðis. Ef allt gengur að óskum í framhaldinu kemur glæsifleyið hingað til lands um mánaðamótin mars/apríl.

baejarlifid

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is