Siglufjarðarpistill 19. mars 2016


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað og hefur undirritaður reynt að byrja hverju sinni þar sem frá var horfið.

Þann 4. janúar og 10. september 2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012, 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember 2013 var komið að Siglufirði. Einnig 17. maí og 15. nóvember 2014, sem og 21. mars og 24. október í fyrra. Og svo í dag.

Þar segir:

 • Umferð um Héðinsfjarðargöng jókst um 6,7% árið 2015 borið saman við árið á undan. Meðalumferð á dag reyndist vera 650 ökutæki á sólarhring en var 609 ökutæki á sólarhring árið 2014. Samtals fóru um 237.188 ökutæki um göngin, í báðar áttir, yfir allt árið. Umferðarmesti dagur ársins var laugardagurinn 8. ágúst en þá fóru um 2.008 ökutæki um göngin, sem er næstmesti fjöldi bíla sem farið hafa um göngin á einum degi, en gamla metið frá 2011 er 2.099 ökutæki. Dagar með yfir 1.000 ökutæki voru 34 sem er nýtt met.
 • Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur markaðssett tvö fæðubótarefni sem unnin eru úr rækjuskel. Þróun á efni til að græða beinvef eftir beinbrot eða annan alvarlegan skaða er langt á veg komin.
 • Fyrsta apríl lætur Örlygur Kristfinnsson af starfi sem safnstjóri Síldarminjasafns Íslands, en því hefur hann gegnt í 20 ár. Anita Elefsen, sagnfræðingur, mun taka við af honum. Síðustu fimm ár hefur hún gegnt hlutverki rekstrarstjóra safnsins. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði.
 • Í ársskýrslu Bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar fyrir árið 2015 kemur fram að gestakomur hafi þá í fyrsta sinn farið yfir 10.000 og fjölgaði gestum í heild frá árinu 2014 um 33%. Lánþegakomur voru 8.875 manns og aðrar heimsóknir voru 2.242. Útlán voru 10.384 en voru 9.181 árið 2014. Útlánaaukning er því 13,1% á milli ára.
 • Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð hefur notið fádæma vinsælda, eins og kunnugt er og dreymir framleiðendur að sögn um að framhald líti dagsins ljós. Verkefnið ku þó vera á frumstigi og snúast aðallega um að leggja línurnar varðandi söguþráð.
 • Menningarverðlaun DV fyrir árið 2015 voru miðvikudaginn 9. mars afhent við hátíðlega athöfn í Iðnó. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir hlaut þar verðlaun í flokki myndlistar. Dómnefnd komst svo að orði við tilnefninguna: „Aðalheiður hefur haldið fjölda sýninga um allt land og einnig sýnt erlendis. Tréskúlptúrar hennar eru einstakir og auðþekkjanlegir og skúlptúrinnsetningar hennar verða sífellt umfangsmeiri, en dómnefnd vill sérstaklega draga fram atorkusemi hennar við að efla og halda saman fjölbreyttu listalífi á Norðurlandi. Aðalheiður hefur haldið utan um starfsemi í Freyjulundi í Eyjafirði, á Hjalteyri þar sem haldnar hafa verið sýningar, tónleikar og alls konar listviðburðir. Hún hefur líka tekið yfir gamla Alþýðuhúsið í heimabæ sínum á Siglufirði sem orðið er vettvangur fyrir fjölbreytta starfsemi, meðal annars listahátíðina Reiti þar sem fólk kemur alls staðar að úr heiminum til samstarfs og sýninga. Aðalheiður hefur með óeigingjarnri vinnu og smitandi áhuga virkjað eldri sem yngri með sér og myndlistarlífið fyrir norðan hefur notið hennar og blómstrað síðustu árin.“
 • Sunnudaginn 13. mars fór hitinn í 17,6 stig í Siglufirði. Mun þetta vera landsdægurmet og reyndar hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings.
 • Elsti núlifandi íbúi Siglufjarðar, Hallfríður Nanna Franklínsdóttir, verður 100 ára 12. maí næstkomandi. Hún fæddist á Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu.
 • Þjóðlagahátíðin á Siglufirði 2016 verður dagana 6. til 10. júlí. Hún ber að þessu sinni yfirskriftina „Tvær stjörnur“. Á meðal þess sem í boði verður er að Greta Salóme Stefánsdóttir, fiðlusnillingur og Júróvisjónfari, og hljómsveit flytja útsetningar Gretu á íslenskum þjóðlögum og nýjar lagasmíðar.
 • Óvissa ríkir um framtíð Síldarævintýrisins á Siglufirði sem haldið hefur verið ár hvert í aldarfjórðung. Siglufjarðarbær hélt lengst af utan um hátíðina en eftir sameiningu sveitarfélaga í Fjallabyggð 11. júní árið 2006 hefur hún verið í höndum sérstaks félags. Þau sem setið hafa í stjórn síðustu fimm árin ákváðu eftir síðustu hátíð að hætta, en þrátt fyrir mikla leit hafa eftirmenn þeirra ekki fundist.
 • Þessa dagana er verið að laga og stækka Bæjarbryggjuna/Hafnarbryggjuna á Siglufirði. Gamla þilið var orðið hættulegt, sundurryðgað og við það að detta fram. Nýtt stálþil var keypt í október í fyrra, niðurrekstur þess boðinn út í nóvember, framkvæmdir hófust í janúar 2016 og þessum verkþætti á að vera lokið í júní. Dýpkun hafnarinnar verður boðin út í vor og lokið í haust. Eitthvað verður síðan unnið við þekju og lagnir á þessu ári, en verklok áætluð snemmsumars 2017. Áætlaður heildarkostnaður er um 420 milljónir króna án virðisaukaskatts; þar af er hlutur ríkisins 290 milljónir króna og Fjallabyggðar 130 milljónir króna.
 • Farfuglarnir eru teknir að tínast til landsins eftir vetrardvöl erlendis. Hinn 13. mars heyrðist í fyrsta tjaldinum í Siglufirði og í fyrradag voru álftirnar mættar. Það má því segja að vor sé í lofti í hinu gamla landnámi Þormóðs ramma og hugur í fólki, þótt enn séu nokkrar vikur í sumardaginn fyrsta.

Úrklippa úr Morgunblaði laugardagsins 19. mars 2016.

Forsíðumynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Úrklippa: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]