Siglufjarðarmynd eftir Gunnellu á konfektkössum frá Nóa Síríusi


Nýir konfektkassar frá Nóa Síríusi komu í verslanir fyrir skömmu. Það út af fyrir sig er engin frétt, en þá prýða hins vegar ljósmyndir af málverkum eftir Guðrúnu Elínu Ólafsdóttur – öðru nafni Gunnellu – og þar á meðal er eitt frá Siglufirði, málað í Herhúsinu árið 2008. Þar má t.d. sjá Hólshyrnuna, Sæbyhúsið, Herhúsið og fólkið á Eyrinni í miklu stuði.

Í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 25. október sagði listakonan m.a.:

?Þeir höfðu samband við mig frá Nóa
Síríusi og sögðu að í tilefni af 90 ára afmæli fyrirtækisins væru þeir
að fara af stað með nýja línu af konfektkössum og hefðu áhuga á að bjóða
upp á íslenska myndlist. Þeir spurðu hvort ég væri til í samstarf og ég
náttúrulega játti því,? segir Gunnella Ólafsdóttir myndlistarkona, en
myndir af málverkum hennar prýða nýja gerð konfektkassa frá Nóa Síríusi,
sem eru að koma í verslanir þessa dagana.

?Það varð úr að þeir völdu fjórar
myndir eftir mig, tvær með vetrarstemningu og tvær með sumarstemningu,?
segir Gunnella. ?Myndirnar eru notaðar á tvenns konar kassa, 600 gramma
og 300 gramma. Myndirnar sem þeir völdu voru þegar til staðar, sumar
óseldar og aðrar í einkaeign, en ég átti til ljósmyndir af þeim sem voru
notaðar fyrir prentunina.?

Gunnella er ánægð með hvernig til
tókst. ?Ég er ánægð, en fyrst og fremst stolt og ánægð með verkefnið.
Mér finnst heiður að hafa fengið þetta tækifæri og þetta er góð kynning á
því sem ég er að gera. Fyrir utan það að mér finnst alveg frábært að
stórt og virt fyrirtæki skuli kynna íslenska myndlist á þennan hátt.
Eini gallinn á þessu er að nú veit fjölskyldan hvað verður í
jólapakkanum í ár.? Gunnella veit ekki af hverju hún varð fyrir valinu.
?Kannski er það af því að myndirnar mínar eru svolítið þjóðlegar og
litríkar og hver segir sína sögu. Myndefnið og hugmyndirnar koma víða
að, bæði úr nútímanum og æsku minni. Ég set oft hugmyndir í gamalt form
og umhverfi frá tímum afa og ömmu. Ég hef alltaf haft gaman af því sem
er gamalt og á sér einhverja sögu,? segir Gunnella.

Hún er fædd 6. júlí árið 1956. Móðir hennar, Vilhelmína Baldvinsdóttir, var dóttir Guðrúnar Jónatansdóttur (f. 1909, d. 1993).

?Amma mín í móðurætt bjó næstum alla sína tíð á Siglufirði, Guðrún í Leyningi, á Suðurgöta 40. Ég heimsótti ömmu og afa oft á sumrin og á yndislegar minningar frá þessum tíma,? sagði Gunnella í samtali við fréttamann, þegar Siglfirðingur hafði samband við hana fyrr í dag. ?Reyndar keypti ég mér lítið afdrep á Hólavegi fyrir 5 árum en ég seldi það síðastliðið haust, því reyndin var að ferðir mínar á Siglufjörð voru ekki eins tíðar og mig hafði dreymt um, svo það var til lítils að halda í hús sem lítið sem ekkert var notað. Svona er það. En ég kem aftur á Siglufjörð í heimsókn, þar er alveg öruggt mál.?

Siglfirðingur.is óskar henni innilega til hamingju með þessa vegsemd.

Nánari upplýsingar um þetta er að finna á heimasíðu Gunnellu, http://www.gunnella.info/, og á http://www.youtube.com/watch?v=mFVBw8A51ro.

 

Þessi mynd prýðir nú 300 gramma konfektkassa frá Nóa Síríusi.

Hún er máluð af Gunnellu í Herhúsinu árið 2008 og nefnist: Lífið heldur áfram.

Þarna má t.d. sjá Hólshyrnuna, Sæbyhúsið, Herhúsið og fólkið á Eyrinni í miklu stuði.

Svona lítur myndin út á kassanum, ósamansettum.

Varan komin á markað.

Og hér er svo listakonan, Gunnella.

Myndir: Fengnar af heimasíðu Gunnellu (http://www.gunnella.info/)

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is