Siglufjarðarkirkju gefið nýtt hljóðkerfi


Þórleifur Jóhann Haraldsson hefur fært Siglufjarðarkirkju að gjöf nýtt og vandað hljóðkerfi. Það sem notað hefur verið í kirkjunni til þessa var komið mjög til ára sinna og ekki alltaf á það treystandi.

Nýja hljóðkerfið var keypt hjá Origo og sett upp af Raffó í samstarfi við Origo á Akureyri.

Um er að ræða hátalarakerfi og ýmis tól frá hinu þekkta vörumerki Bose, þar á meðal tvær hljóðstangir sem hvor um sig er með níu hátölurum í,  og eitt bassabox, en svo að hluta til líka frá Yamaha. Gjöfin er að verðmæti hátt á aðra milljón króna. Hljóðkerfið býður upp á allt það nýjasta á markaðnum, s.s. blátönn, og er nettengt.

Í hátíðarguðsþjónustu í Siglufjarðarkirkju á morgun kl. 11.00 verður formlega tekið við hinni höfðinglegu gjöf og nýja hljóðkerfið notað í fyrsta sinn.

Eins og auglýst var í Tunnunni í vikunni er fólk sem hyggst sækja guðsþjónustuna vinsamlegast beðið um að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis og nota handspritttækið sem komið hefur verið fyrir í anddyri kirkjunnar. Ný skilgreining á tveggja metra reglunni er þessi, samkvæmt minnisblaði sóttvarnalæknis frá 20. maí, sem tók gildi 25. maí: Fólk má sitja eða standa þétt, en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected] 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]