Siglufjarðarkirkju fært að gjöf hvítt altarisklæði


Stjórn Bettýarsjóðs, fyrir hönd Sinawikklúbbs Siglufjarðar, færði í kvöld Siglufjarðarkirkju, á aðventuhátíð sem þar var, hvítt altarisklæði að gjöf úr Bettýarsjóði. Sjóðurinn var stofnaður  af Sinawikklúbbi Siglufjarðar, til minningar um Guðrúnu Margréti  Ingimarsdóttur, sem fædd var 4. mars 1945, en lést 30. apríl 1976.

Þótt sjóðurinn sé stofnaður undir nafni Guðrúnar, sem alltaf var kölluð Bettý, er honum jafnframt ætlað að vera minningarsjóður um allar látnar Sinawiksystur.

Árið 2011 gaf Bettýarsjóður Siglufjarðarkirkju aukinheldur fjólublátt altarisklæði.

Klæðin eru sérsaumuð í Belgíu, nánar tiltekið hjá Slabbinck, og eru gerð úr samskonar efni og gotnesku höklarnir sem ýmis fyrirtæki og félög hér í bæ gáfu kirkjunni fyrir um áratug og til eru í fjólubláum lit, hvítum, grænum og rauðum.

Í Íslensku þjóðkirkjunni er notast við eftirfarandi liti: hvítt eða gyllt, rautt, grænt og fjólublátt eða svart. Litareglan hefur verið í mótun í alheimskirkjunni í um þúsund ár og tekið margvíslegum breytingum í aldanna rás. Ýmsir litir voru þess vegna fyrrum í gangi, því lengi framan af voru engar reglur til að þessu lútandi, nema þá á ákveðnum svæðum, og þær reyndar nokkuð mismunandi frá einu til annars. Á 16. öld setti Píus V., sem var páfi í Róm á árunum 1566-1572, fastar reglur um þetta og gilda þær enn um alla hina rómversk-kaþólsku kirkju, nema sums staðar í Afríku og Asíu. En þess ber að geta, að ekki notast öll kirkju- og trúfélög heimsins við slíkt táknkerfi lita. Þær kirkjur mótmælenda, sem nota litakerfið, fylgja þó nú að mestu sömu reglum og Píus V. kom á.

Á Íslandi beittu menn kirkjulitunum frjálslega á öldum áður. Þannig eru til heimildir (og klæðisbútar) er sýna að bönnuðu litirnir voru notaðir hér, eins og t.a.m. gult, sem einungis páfinn mátti nota, blátt, sem var Maríuliturinn, og jarðbrúnt, sem var algjörlega bannað. Íslenska kirkjan týndi svo alveg litum kirkjuársins þegar kom fram á 17. öld, og tók bara upp rauða litinn, samkvæmt dönskum reglum. Það var ekki fyrr en um 1960 að skrúðaeign kirknanna óx, og þá fór litareglan að skipta máli að nýju. Með handbók presta 1981 er gamla kaþólska reglan svo tekin upp aftur.

Annars er um litina að segja, að hvítt – litur gleðinnar, réttlætisins, sakleysisins og hreinleikans – er við lýði 1. sunnudag í aðventu, á jólum (frá aðfangadegi til og með þrettándanum, ekki þó á 2. í jólum), á boðunardegi Maríu, á skírdag, á páskadögunum báðum og sunnudögum eftir páska, á uppstigningardag, á siðbótardaginn og lokasunnudag þrenningarhátíðar. Einnig er gylltur litur notaður á Kristshátíðunum; hann er tákn eilífðarinnar.

Rautt – litur blóðsins og eldsins og kærleikans og andans – er viðhafður á minningardögum postula og trúarhetja, sem hafa dáið vegna fylgni sinnar við Krist. Á 2. jóladag er t.d. Stefáns, fyrsta píslarvotts kristninnar, minnst. Og bænadagur að vetri, hvítasunnan, sem og þrenningarhátíð (1. sunnudagur eftir hvítasunnu) og kristniboðsdagurinn (2. sunnudagur í nóvember) bera einnig rauðan lit.

Grænt er litur vaxtar og þroska og vonar, og er á langflestum sunnudögum kirkjuársins. Hann er á öllum sunnudögum eftir þrettánda og að föstutímabilinu, og á öllum sunnudögum eftir þrenningarhátíð – nema inn í komi dagar með sérefni og tilheyrandi lit, eins og sumardagurinn fyrsti (hvítur), sjómannadagurinn (hvítur eða rauður), þjóðhátíðardagurinn (hvítur eða rauður), siðbótardagurinn (hvítur eða rauður) og allra heilagra messa (hvítur eða rauður) – auk nokkurra sunnudaga annarra.

Fjólublátt er litur þriggja sunnudaga aðventunnar (2., 3. og 4.)  og einnig er hann notaður á föstunni (nema skírdag). Á seinni árum er jafnframt farið að nota hann í auknum mæli við útfarar- og sálumessur og á föstudaginn langa; eldri hefð er þó að nota svart í áðurnefndum tilvikum. Fjólublátt er því litur íhugunar, iðrunar og hryggðar; svart litur dauða og sorgar.

Gulllitaði krossinn, sem er á báðum nefndum altarisklæðum Siglufjarðarkirkju, er kallaður tevtónskur. Hann er jafnarma sem er tákn höfuðáttanna fjögurra. Þar sitja erkienglarnir – Mikael í austri, Rafael í vestri, Úriel í suðri og Gabríel í norðri. Hann er samsettur út fjórum T-krossum, en sú gerð hefur einnig verið nefnd aðventukross eða eftirvæntingarkross.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is