Siglufjarðarkirkja, Kaffi Rauðka og Bláa húsið


Annar dagur hátíðarhalda vegna 150 ára afmælis sr. Bjarna Þorsteinssonar tókst vel. Að þessu sinni voru Siglufjarðarkirkja, Kaffi Rauðka og Bláa húsið í eldlínunni. Dagskránni, sem auglýst var hér í gær, var fylgt út í æsar. Fjöldi manns sótti atburðina sem í boði voru.

Anita Elefsen, sem nemur sagnfræði í Háskóla Íslands, var með erindi, sem hún veitti Siglfirðingi.is góðfúslegt leyfi til að birta og kemur það hér. 

Hver er sr. Bjarni fyrir ungu fólki?

Erindi mitt hér í dag er að svara spurningunni: Hver er sr. Bjarni fyrir ungu fólki? Erfitt er að alhæfa um þekkingu ungs fólks á æviskeiði og afrekum sr. Bjarna eða um hvaða skilning ungt fólk hefur á hinum margþættu störfum hans.

Ég stend í þeirri meiningu að sr. Bjarni Þorsteinsson sé að miklu leyti gleymdur okkur unga fólkinu, jafnvel má segja að hann sé okkur týndur. Sem grunnskólabarn lærði ég lítið sem ekkert um sr. Bjarna ? á þeim árum hafði Þjóðlagasetur ekki opnað en Bjarnastofa var hluti af Bókasafni Siglufjarðar. Hluti skólagöngunnar fólst í tónfræði, þar lærðum við að lesa nótur og þvíumlíkt, en þjóðlögin og hið mikilvæga starf sr. Bjarna við að bjarga þeim frá gleymsku tilheyrðu ekki námsefninu. Í minningunni standa tvö atriði upp úr barnaskólakennslu á sögu bæjarins; Þormóður rammi og síldin. Þá var sr. Bjarni ekki stóri maðurinn í sögu okkar ? eins og við minnumst hans í dag. Máli mínu til stuðnings gerði ég örlitla könnun, spurði nokkra vini og kunningja hvað þeir gætu sagt mér um sr. Bjarna Þorsteinsson ? án þess að nota Google eða spyrja aðra. Svörin voru dræm eins og ég gerði ráð fyrir. ?Prestur? hafði um helmingur þeirra sem spurðir voru á hreinu. Einn svaraði því til að hann hefði teiknað miðbæinn, en bætti svo við ?..eða var það kannski Gústi guðsmaður??. Séra Bjarni er svo lítið þekktur meðal ungs fólks að annar svaraði því til að hann væri listamaður sem byggi á Hólaveginum.   

Ég geri þó ráð fyrir að þau börn sem nú eru á grunnskólaaldri hér á Siglufirði hafi meira frá Bjarna að segja en ég hafði á þeirra aldri, og meira en fólk á mínum aldri almennt. Minningu hans er haldið á lofti á Þjóðlagasetrinu, auk þess sem hin árlega Þjóðlagahátíð gefur kennurum tækifæri til að fjalla um sóknarprestinn og þjóðlagasafnarann. 

Hver ástæða þess að Bjarni er eins fjarri okkur unga fólkinu og raun ber vitni er erfitt að segja til um. Eldra fólk virðist þekkja vel til hans, en ungt fólk og fólk á miðjum aldri virðist ekki þekkja mikið til hlutverks hans í sögunni, nema þeir sem áhugasamir eru og hafa sjálfir borið sig eftir fróðleik um ævi og störf sr. Bjarna. Í sagnfræðinni tala menn um hinar ýmsu tegundir minnis, ein þeirra er svokallað sameiginlegt minni. Þá hafa hugtökin minni og minningar verið færð frá einstaklingum yfir á hópa eða jafnvel þjóðir sökum þess að minni og minningar eru talin ganga í arf að einhverju leyti. Þannig má til dæmis tala um sameiginlegt minni Siglfirðinga. En svo virðist sem sóknarpresturinn sr. Bjarni Þorsteinsson sé ekki hluti af sameiginlegu minni Siglfirðinga af minni kynslóð, og jafnvel ekki heldur þeirra sem eldri eru, nema að takmörkuðu leyti.

Ég segi að Bjarni sé fjarri okkur unga fólkinu ? en góður maður benti mér á að hann væri okkur samt svo nærri. Vandamálið er að við gerum okkur ekki grein fyrir því. Flestir kannast við þekktustu lög Bjarna; Blessuð sértu sveitin mín og Ég vil elska mitt land, en án þess þó að vita hver höfundur þeirra er. Sami maður sagði mér að hvert kvöld, klukkan sex, væri leikinn hluti úr lagi sr. Bjarna á klukkurnar hér í kirkjuturninum ? því hafði ég sjálf ekki gert mér grein fyrir. En því má líka halda fram að upp að vissu marki ráði Bjarni enn hreyfingum okkar hér á Siglufirði, því þegar við göngum um eyrina fylgjum við skipulagi og línum sr. Bjarna.

Sögu þessa merka manns, föður Siglufjarðar, verður að bjarga frá gleymsku. Bjarni Þorsteinsson þarf að verða ungu fólki sýnilegri, við þurfum að skynja hann og verk hans betur. Hátíðarhöldin hér á Siglufirði í dag, ný bók Viðars Hreinssonar um ævi sr. Bjarna ? og við sjálf ? getum haft þar mikið að segja.

Á morgun verður svo hátíðarguðsþjónunusta kl. 14.00 í umsjá presta Fjallabyggðar. Þar munu fjórir kórar syngja. Þar með lýkur formlegri dagskrá hátíðarhaldanna.

Fólk er þó eindregið hvatt til að fylgjast með Landanum í ríkissjónvarpinu annað kvöld. Þar verður að finna rúsínuna í pylsuendanum.

En hér koma nokkrar myndir frá laugardeginum 15. október.

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri flutti ávarp.

Þessi börn sungu lög úr þjóðlagasafni sr. Bjarna.

Ave Tonisson og Þorsteinn Sveinsson voru þeim til halds og trausts.

Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður var með erindi um líf og störf sr. Bjarna.

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur las úr nýrri ævisögu sr. Bjarna sem væntanleg er í nóvember.

Ave og Þorsteinn stjórnuðu fjöldasöng.

Hér er sungið: ?Það liggur svo makalaust ljómandi á mér.?

Kirkjugestir.

Þórarinn Hannesson sagði frá hagyrðingnum sr. Bjarna.

Anita Elefsen var með áhugavert erindi, eins og reyndar allir ræðumenn dagsins.

Hennar nefndist: Hver er sr. Bjarni fyrir ungu fólki?

Að málþinginu loknu var skundað niður í Kaffi Rauðku, þar sem veitingar í boði bæjarstjórnar og fyrirtækja biðu fólks.

Þess má geta, að Rauðka gaf leigu af húsinu og alla þjónustu í tilefni afmælisins.

Kl. 15.00 var opnuð málverkasýning í Bláa húsinu, sem og ljósmyndasýning.

Málverkasýningin nefndist: Sr. Bjarni í römmum nokkurra listamanna.

Þeir voru: Bergþór Morthens, Gunnlaugur Blöndal, Herbert Sigfússon, Ragnar Páll,

Rigmor Bak Frederiksen, Þröstur Magnússon og Örlygur Kristfinnsson.

Einnig var á sýningunni lágmynd eftir Ríkarð Jónsson.

Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga áttu veg og vanda að ljósmyndasýningunni,

þar sem gengið var með myndavélar í spor sr. Bjarna.

Sama.

Sama.

Sama.


Flott auglýsing.

Örlygur Kristfinnsson með ljósmyndasýningu eftir kaffiveitingarnar.

Myndir og kynningartexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti á gráum fleti: Anita Elefsen.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is