Siglufjarðarkirkja 85 ára


Mánudaginn 28. ágúst næstkomandi á Siglufjarðarkirkja 85 ára vígsluafmæli.

Þann 16. maí 1931 var byrjað að grafa fyrir byggingunni og 29. júlí var steypuvinnu lokið á veggjum og lofti og ráðist í að steypa turninn. Hinn 15. ágúst 1931 var hornsteinninn lagður með viðhöfn en þá var kirkjan nær fokheld. Veturinn 1931–1932 var hún fullsmíðuð og í lok júlí 1932 var altarið komið á sinn stað og eins prédikunarstóll, skírnarfontur (gerður af Ríkarði Jónssyni myndskera) og bekkir. Þegar svo Jón Helgason biskup vígði musterið, 28. ágúst 1932, voru liðnir rúmir 15 mánuðir frá því byggingarframkvæmdir hófust. Var þarna risin stærsta kirkja á Íslandi í þá daga, að Kristskirkju í Landakoti undanskilinni, sem hafði verið reist 1929.

Í tilefni afmælisins verður hátíðarmessa á sunnudag, 27. ágúst, kl. 14.00. Frú Solveig Lára Guðmundsdóttir Hólabiskup prédikar, sóknarprestur þjónar fyrir altari, Kirkjukór Siglufjarðar syngur og auk hans þær systur Eva Karlotta og Ragna Dís Einarsdætur, sem og Þorsteinn B. Bjarnason. Sigurður Hlöðvesson leikur á trompet. Organisti verður Rodrigo J. Thomas.

Að guðsþjónustu lokinni verða kaffiveitingar í safnaðarheimilinu.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is