Siglufjarðargöng


„Þing­menn Norðaust­ur­kjör­dæm­is hafa lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að Alþingi feli inn­an­rík­is­ráðherra „að hefja vinnu við nauðsyn­leg­ar rann­sókn­ir og frum­hönn­un á jarð­göng­um milli Siglu­fjarðar og Fljóta.“ Ráðherra skili þing­inu skýrslu með niður­stöðum rann­sókna fyr­ir árs­lok 2018.

„Með stór­auk­inni um­ferð um Siglu­fjörð með til­komu Héðins­fjarðarganga og sí­felldu jarðsigi á Siglu­fjarðar­vegi um Al­menn­inga og mjög tíðum aur- og snjóflóðum á strönd­inni út frá Sigluf­irði að Stráka­göng­um er full­ljóst að framtíðar­veg­teng­ing frá Sigluf­irði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarð­ganga milli Siglu­fjarðar og Fljóta,“ seg­ir meðal ann­ars í grein­ar­gerð.

Fyrsti flutn­ings­maður til­lög­unn­ar er Kristján L. Möller, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.“

Þetta gaf að lesa á Mbl.is fyrr í kvöld.

Þingsályktunartillagan er á þessa leið:

Tillaga til þingsályktunar um gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta.

Flm.: Kristján L. Möller, Össur Skarphéðinsson, Höskuldur Þórhallsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Steingrímur J Sigfússon, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Egilsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja vinnu við nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafjarðarsýslu. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum rannsókna fyrir árslok 2018.

Greinargerð.

Með stóraukinni umferð með tilkomu Héðinsfjarðarganga um Siglufjörð svo og sífelldu jarðsigi á Siglufjarðarvegi um Almenninga og mjög tíðum aur og snjóflóðum á ströndinni út frá Siglufirði að Strákagöngum er fullljóst að framtíðarvegtenging frá Siglufirði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta.

Á fylgiskjali 1 má sjá annars vegar hugsanlega legu jarðganga sem eru 4,7 km að lengd frá Hólsdal í Siglufirði yfir í Nautadal í Fljótum og gerð u.þ.b. 5 km langs vegar til að tengjast núverandi vegakerfi og hins vegar 6,1 km löngum göngum frá Skarðsdal yfir að Hrauni í Fljótum. Með báðum þessum leiðum styttist vegurinn frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar um rúmlega helming eða um 15 km.

Vegurinn um Almenninga.

Núverandi Siglufjarðarvegur frá Ketilási að bæjarmörkum Siglufjarðar er um 25 km langur og liggur um svokallaða Almenninga. Vegurinn var lagður í tengslum við opnun Strákaganga árið 1967 og er barn síns tíma, hlykkjóttur og bugðóttur, en það sem verst er að hann liggur um 7 km langt jarðsigssvæði sem er á hreyfingu á löngum köflum og hefur verið í mörg ár með tilheyrandi vandræðum og kostnaði, að ekki sé talað um hversu hættulegur vegurinn er og víða mjög hátt til sjávar frá honum. Þessi vegakafli er jafnframt mesti farartálminn á leiðinni frá Siglufirði og mjög oft ófær vegna snjóa.

Vegurinn út með ströndinni í Siglufirði.

Vegurinn út með ströndinni í Siglufirði og að Strákagöngum verður mjög oft ófær vegna aurflóða annars vegar og snjóflóða hins vegar og er því mikill farartálmi eins og vegurinn um Almenninga.

Strákagöng.

Árið 1967 voru Strákagöng vígð og tekin í notkun. Þau eru um 840 m löng yst á Tröllaskaga og tengja saman Siglufjörð og Skagafjörð með þjóðvegi um svokallaða Almenninga. Með þeim lagðist af vegurinn um Siglufjarðarskarð sem var opnaður árið 1946 en sem var aðeins fær nokkra sumarmánuði á ári. Með Strákagöngum var því vetrareinangrun Siglufjarðar rofin.

Framkvæmdir við Strákagöng hófust árið 1959 en lögðust síðan niður þar til framkvæmdir hófust á ný af miklum krafti árið 1965 og þeim lauk með opnun einbreiðra Strákaganga haustið 1967.

Ekki er nokkur vafi á því að með tilkomu Strákaganga bötnuðu vegasamgöngur til og frá Siglufirði til muna en það verður að segjast alveg eins og er að staðsetning þeirra og framkvæmd er barn síns tíma og ákvörðun um slíka staðsetningu yrði aldrei tekin í dag.

Héðinsfjarðargöng.

Líkt og fram kemur í upphafi greinargerðarinnar hefur umferð stóraukist til og frá Siglufirði og Ólafsfirði með tilkomu Héðinsfjarðarganga sem voru opnuð 2. október 2010. Umferð um göngin hefur slegið öll met og er langt umfram umferðarspá sem gerð var á undirbúningstíma þeirra. Þær geysimiklu breytingar sem hafa orðið á þessu svæði frá opnun ganganna eru besta vísbending um mikilvægi þeirra. Sveitarfélögin Siglufjörður og Ólafsfjörður voru sameinuð í júní 2006 í sveitarfélagið Fjallabyggð og ýmiss konar samrekstur og hagræðing hefur orðið í framhaldi af sameiningunni. Héðinsfjarðargöng eru eitt besta dæmið um verulega jákvæð áhrif af framkvæmdum hins opinbera til að efla innviði veikra svæða og stuðla þar með að viðsnúningi og eflingu þeirra.

Siglufjarðargöng.

Eins og fram kemur á mynd á fylgiskjali 1 er hér átt við gerð 4,7 km langra jarðganga úr Hólsdal í Siglufirði og yfir í Nautadal í Fljótum en auk þess er sýndur annar valkostur við legu ganganna, og þess má geta að gerð jarðganga á þessu svæði er bæði í skipulagi Fjallabyggðar og sveitarfélagsins Skagafjarðar. Rétt er einnig að taka fram að með nýrri vegtengingu í vesturátt frá Siglufirði mun ekki vera þörf á að breyta innkeyrslunni til Siglufjarðar frá Strákagöngum þar sem hún liggur um þröngar íbúðagötur í bænum. Ekki er nokkur vafi á því að mati flutningsmanna að ný Siglufjarðargöng muni styrkja og efla byggð í Fljótum en þar hefur orðið mikil uppbygging að Deplum síðustu ár þar sem erlendir aðilar hafa byggt stórt og myndarlegt lúxushótel af. Með jarðgöngum þessum verður eins og áður hefur komið fram um 10 km frá miðbæ Siglufjarðar að Ketilási í Fljótum í stað 25 km eins og nú er. Svæðin tengjast því enn frekar og betur sem eitt atvinnusvæði. Að lokum má geta þess að með tilkomu Héðinsfjarðarganga hefur skapast ný og mikið notuð varaleið fyrir þjóðveg 1 þegar Öxnadalsheiði lokast og munu því ný Siglufjarðargöng eins og hér er rætt um auka enn frekar notagildi þeirrar varaleiðar og auka umferðaöryggi fyrir vegfarendur á þessari leið, auk þess að stytta vegalengd um 15 km eins og áður hefur komið fram.

Með tillögu þessari er lagt til að fela innanríkisráðherra, sem aftur myndi fela Vegagerðinni framkvæmd verkefnisins, að hefja rannsóknir og athuganir á bestu leiðinni og leggja mat á kostnað við framkvæmdina. Þá er lagt til að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2018.

Fyrsti flutn­ings­maður til­lög­unn­ar er Kristján L. Möller.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Aðsendur / Mbl.is / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]