Flugvöllurinn í umræðunni


Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð vilja að flugvöllurinn á Siglufirði verði tekinn aftur í notkun. Flugstöðin hefur drabbast niður síðan völlurinn var afskráður fyrir nokkrum árum. Formaður bæjarráðs segir ótækt að ríkið skili flugvellinum í óhæfu ástandi til baka til sveitarfélagsins. Isavia vísar á stjórnvöld í málinu.

Þetta mátti lesa í frétt á Rúv.is 15. desember síðastliðinn. Og áfram sagði þar:

Lokuninni mótmælt af bæjarbúum

Flugvellinum á Siglufirði var lokað og hann afskráður 2014, þrátt fyrir hávær mótmæli bæjarbúa. En nú binda bæjaryfirvöld vonir við að hann verði opnaður á ný, og þá sem lendingarstaður. Athafnamennirnir og Siglfirðingarnir Orri Vigfússon og Róbert Guðfinnsson hafa báðir barist fyrir því að flugvöllurinn verði opnaður og tekur Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, undir það.

Eflir ferðaþjónustu og öryggi íbúa

Steinunn bendir á að það þýði þó ekki að völlurinn verði alveg fullkominn, heldur gætu þá flugmenn, á eigin ábyrgð, lent á honum en sveitarfélagið mundi annast upplýsingagjöf til þeirra.

„Við teljum að það skipti máli að mannvirki eins og Siglufjarðarflugvöllur sé í notkun, bæði til þess að efla ferðaþjónustu hér á svæðinu, en líka sem ákveðið öryggi fyrir íbúa Fjallabyggðar þannig að það sé hægt að lenda sjúkraflugvél til dæmis,“ segir hún. „Síðan má segja að það er eiginlega ótækt að ríkið hætti að nota mannvirki í svona litlu sveitarfélagi og skili því ekki í fullkomnu ástandi til baka. Ef það á að gera eitthvað með hann, þá er það auðvitað ekki á forræði svona lítils sveitarfélags að endurbyggja flugvöll.“

60 milljónir á núverandi samgönguáætlun

Inni á gildandi samgönguáætlun eru 60 milljónir sem eiga að fara í flugvöllinn og vonar Steinunn að það verði til þess að flugvöllurinn geti komist í gagnið í sumar.

„Enginn samningur hefur verið gerður á milli sveitarfélagsins og Isavia um það að sveitarfélagið taki við mannvirkjunum sem slíkum, en forsendan hjá okkur hefur alltaf verið sú að við ætlum að taka við mannvirkjunum, en þá yrði þeim skilað í góðu ástandi,“ segir Steinunn.

Isavia vísar á stjórnvöld

Isavia, sem rekur flugvelli landsins, segir í svari til Fréttastofu að ástand flugstöðvarinnar hafi verið orðið mjög slæmt en Framkvæmdasýsla ríkisins leigði aðstöðu þar á meðan framkvæmdir við snjóflóðagarða ofan Siglufjarðar stóðu yfir. Ákveðið var að leigan færi í viðhald á flugstöðinni, sem er nú í betra ástandi eftir að framkvæmdum lauk í sumar. Isavia undirstrikar að sveitarfélagið þurfi að ræða við stjórnvöld um framtíðarfyrirkomulag flugvallarins, þar sem reksturinn byggir á þjónustusamningi ríkisins við Isavia sem hefur ekki verið í gildi síðan 2014.

Myndir (úr safni): Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Rúv.is (Sunna Valgerðardóttir) / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is