Siglufjarðarkirkja opin gestum


Lengi hafði staðið til að hafa Siglufjarðarkirkju opna yfir sumartímann, enda margur ferðamaðurinn sem þar gekk að dyrum, í von um að komast inn til að skoða þetta mikla og fagra guðshús. Fyrir ýmissa hluta sakir var ekki unnt að láta verða af þessu fyrr en sumarið 2013. Þá var hún opin í mánuð. Í fyrra var opnað 10. júní og haft opið fram á haust og þetta sumarið formlega 8. júní, þótt upp hafi verið lokið fyrir þau sem komu með skemmtiferðaskipum fyrir þann tíma, í lok maí og byrjun júní.

Opið verður frá kl. 13.00 til 17.00 alla daga, virka og helga, út ágústmánuð, svo fremi að ekki séu þar athafnir í gangi eða kirkjan upptekin út af einhverju öðru, s.s. tónleikum.

Ungmenni úr vinnuskólanum annast gæsluna virka daga, í boði sveitarfélagsins Fjallabyggðar, og Félag eldri borgara á Siglufirði og Systrafélag Siglufjarðarkirkju munu sjá um gæslu um helgar, endurgjaldslaust, líkt og í verið hefur til þessa.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is