Sigló Ski Lodge


Tíðindamaður þessa fréttamiðils leit inn í Skarðdalsskóg fyrir nokkrum dögum. Þar var verið að halda upp á 13 ára afmæli. Óvenju dekkmikil reiðhjólin sem leigð höfðu verið handa ungmennunum í tilefni dagsins vöktu athygli hans og var annar leiðbeinandanna, sem fylgdu með í kaupunum, ef svo má að orði komast, Gestur Þór Guðmundsson, spurður nánar út í þessi farartæki. Kvað hann þau nefnast Fatbike á ensku, sem mætti útleggjast Bumbuhjól á íslensku, og eru þau sérstaklega hönnuð til að aka torfærur, en gagnast í margt annað líka. Það er Sigló Ski Lodge, til húsa að Snorragötu 6, sem leigir þau út.

„Þetta er fyrirtæki sem býður upp á Fatbike og gönguferðir,“ sagði Gestur. „Við höfum líka tengt okkur við hestaleiguna á Sauðanesi til að geta boðið upp á hestaferðir. Þessar ferðir okkar eru stílaðir inn á hreina náttúruupplifun og tengingu við þá miklu sögu og menningu sem er á svæði Siglufjarðar.“

Eins og staðan er núna býður Sigló Ski Lodge upp á:

a) Þriggja klukkustunda Fatbike ferð: Hjólað er úr bænum, inn í Hólsdal og að vatnsverndarsvæðinu. Þaðan er gengið upp að þeim mörgu fossum sem falla niður fjöllin. Síðan er hjólað út gólfvallarveginn og farið inn í Skarðdalsskóg og kíkt á Leyningsfoss/Kotafoss.
b) Einnar klukkustundar Fatbike ferð: Haldið inn gólfvallarveginn og að vatnsverndarsvæðinu. Þaðan er gengið að fossunum og kakói hellt í bolla og sest niður, til að njóta útsýnisins.
c) Þriggja klukkustunda gönguferð: Gengið að Selvíkurnefsvita, þaðan upp Kálfsdalinn og að Kálfsdalsvatni. Síðan til baka.
d) Einnar klukkusundar jeppaferð: Ekið upp Lágheiðina og inn í Fljót. Síðan upp og yfir Siglufjarðarskarð.

Nánari upplýsisingar er að finna á vefsíðu fyrirtækisins, www.skilodge.is.

Eins og hér má sjá eru dekkin afar væn um sig.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is