Sigló rokkar


Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og prófessor var á Siglufirði um helgina og lýsti á Facebook-síðu sinni mikilli ánægju með dvölina.

Á föstudag fór Tómas „einsamall á fjallaskíðum frá Siglufirði yfir í Fljót að Brúnastöðum. Gekk upp úr þokunni norðanmeginn þar sem sólin skein á nýfallinn snjóinn. Efst var 25 cm púður en þoka og GPS tæki kom því í góðar þarfir niður af snarbröttum Eggjunum. Fljótlega sást í Fljótin, og aftur buðust ótrúleg birtuskilyrði. Frábær 13 km fjallaskíðaleið en mjög brött efst.“

„Einn allra besti dagur sem ég hef nokkru sinni upplifað,“ sagði Tómas í færslu á laugardagskvöld. Um morguninn fór hann við annan mann upp í Hestskarð og þeir „uppskárum hina fullkomnu salíbunu í lausamjöll og sól“. Síðar um daginn gekk Tómas, ásamt tuttugu öðrum í Félagi íslenskra fjallalækna, á skíðum á Presthnjúk, bakvið Hólshyrnu, og Móskógahnjúk, fyrir botni Skútudals. „Færinu verður ekki lýst – þurrt nýfallið púður og sól allan daginn. Sigló og umhverfi rokka.“

Þess má geta að Hestskarð er í 593 metra hæð og Presthnjúkur er 767 metrar.

Sjá fleiri myndir hér.

Myndir: Tómas Guðbjartsson. ©
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is