Sigló Hótel risið við bátadokkina


Sigló Hótel, með gistirými fyrir allt að 140 manns, er risið í gamla síldarbænum yst á Tröllaskaga, nánar tiltekið að Snorragötu 3. Það var formlega opnað 19. júlí síðastliðinn og er nýjasta skrautfjöðrin í hatt Róberts Guðfinnssonar athafnamanns, enda hið glæsilegasta í alla staði, og einn liður í mikilli uppbyggingu hans þar í firði, sem hófst fyrir nokkrum árum og sér ekki fyrir endann á. Mætti þar nefna Bláa húsið, Genis, Hannes Boy, Kaffi Rauðku, nýjan golfvoll í Hólsdal, sem enn er í smíðum, í samvinnu við sveitarfélagið Fjallabyggð, auk framkvæmda við endurbætur á skíðasvæðinu í Skarðsdal, að fátt eitt sé nefnt.

Hótelið nýja, sem byggt er út í smábátahöfnina, er á tveimur hæðum, klætt timbri að utan. Herbergi eru 68 talsins, flest svokölluð Classic herbergi, 23 m2 að stærð, með tvíbreiðu rúmi, búin hágæða rúmfötum. Einnig eru á hótelinu fjögur Deluxe herbergi, 29 m2, tvær svítur og ein Junior svíta. Alls er byggingin um 3.400 fermetrar að stærð.

Er óhætt að segja að bátadokkin hafi gengið í endurnýjun lífdaga með tilkomu allra þessara litfögru húsa sem þar eru nú komin og draga að sér mikinn fjölda gesta og heimafólks, og er bærinn allur jafnframt að taka stakkaskiptum, ekki síst vegna áhrifa þaðan.

Á siglohotel.is kemur fram, að starfsfólk leggi sig fram um að bjóða gestum upp á notalegt og afslappandi umhverfi með klassísku og rómantísku yfirbragði. Öll herbergi hafi útsýni yfir fallega náttúru svæðisins, bæði haf og fjöll, og úr notalegu gluggasætinu megi fylgjast með amstri dagsins líða hjá. Herbergin séu rúmgóð og prýði myndir úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar veggi þeirra. Gestir hótelsins hafi aðgang að heitum pottum og gufubaði sem opna muni seinni hlutann í ágúst. Á umræddri heimasíðu er fjöldi mynda af herbergjum og öðru, ásamt upplýsingum af ýmsum toga.

Fyrsta skóflustunga að hótelinu var tekin 19. febrúar 2013 og það gerði dóttir Róberts, Sigríður María. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og var þá framkvæmdastjóri Rauðku ehf. en er nú hótelstjóri.

„Upphaflega hugmyndin að byggingunni kom frá pabba, og Jón Steinar Ragnarsson, frændi minn, teiknaði síðan upp fyrir hann en svo fór þetta til ASK arkitekta fyrir sunnan og þar var klárað að útfæra hugmyndina,“ segir hún, aðspurð um tildrögin að þessu mikla og fagra húsi. „Jón Steinar valdi litina að utan en Edda Ríkharðsdóttir aðstoðaði okkur við innanhússhönnunina.“

Á hótelinu er m.a. Veitingastaðurinn Sunna. Hann er opinn fyrir dvalargesti og gangandi frá kl. 18.00 til 22.00, alla daga, allan ársins hring. „Þar er aðeins önnur áhersla en á Hannes Boy og Kaffi Rauðku, við leggjum aðeins meiri áherslu á íslenskar afurðir og reynum að fá matinn sem næst okkur hérna, úr nærliggjandi sveitum, fisk og kjöt, en hann er samt dálítið blandaður, því okkur langar að höfða til sem flestra gesta,“ segir Sigríður. Á barsvæðinu er sérstakur matseðill og yfir daginn er hægt að kaupa sér léttar veitingar þar; Sunnubar er opinn frá kl. 12.00 til 22.00.

„Það er búið að bóka töluvert, a.m.k. tvö ár fram í tímann, en sérstaklega yfir sumarið núna, fram á haustið. Megnið erum við að taka í gegnum ferðaskrifstofur, útlendingana. Við fórum dálítið seint af stað í markaðssetningu innanlands, af því að við vildum vera alveg örugg um að allt yrði tilbúið hjá okkur, en það stefnir í fína aðsókn Íslendinga hingað í sumar líka, engu að síður, svo hægist eitthvað á með haustinu og eflaust mun taka nokkur ár að komast í góða heilsársnýtingu á svona stóru hóteli, en við höfum strax fengið mjög góðar viðtökur.“

Þess má að lokum geta að með tilkomu Sigló Hótels ríflega tvöfaldaðist gistirýmið á Siglufirði.

Sigló Hótel nýtur sín frábærlega við bátadokkina.

 

Sigríður María Róbertsdóttir hótelstjóri við aðalinnganginn.

Bjartur og skemmtilegur morgunverðarsalur hótelsins, þar sem hægt er að fylgjast með iðandi mannlífinu við höfnina.

Glæsilegt útsýni úr einni af svítum hótelsins.

Arinstofa Sigló Hótels býður upp á notalegt umhverfi til að slappa af í.

Úr Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]