Siglfirzk verzlun á fyrstu tímum


– viðtal við Andrés Hafliðason um verzlunina hér allt frá aldamótum

Í tilefni af frídegi verzlunarmanna leitaði tíðindamaður blaðsins til Andrésar Hafliðasonar, sem eins af elztu verzlunarmönnum bæjarins, og innti hann tíðinda um sögu siglfirzkrar verzlunar. Andrés lét fúslega í té ýmsar fróðlegar og skemmtilegar upplýsingar um verzlunarmál bæjarins allt frá aldamótum.

Hvenær hófst þú verzlunarstörf hér á Siglufirði?

„Árið 1905, og vann ég þá við verzlun Wilhelms M. Jónssonar, sem stofnuð var árið áður. Þar var ég fyrst starfsmaður.”

Var það fyrsta verzlun bæjarins? 

„Nei, fyrsta verzlunarbréfið keypti Guðmundur S. Th. Guðmundsson árið 1899, og stofnaði hann hér verzlun, en önnur í röð einstaklingsverzlana var verzlun Wilhelms. Árið 1906 bættust svo tvær verzlanir í hópinn, verzlun Helga Hafliðasonar og verzlun Halldórs Jónassonar, en hann rak einnig bakarí. Hjá honum vann ég árið 1913 og var þá orðinn góður bakari. Við bökuðum mest svonefnd fínbrauð, en einnig „fyrirmyndar“ jólakökur og vínarbrauð, sem allt seldist upp jafnharðan, þótt ekki þori ég að fullyrða, að það þyldi samkeppni við nútímann.”

Hvað getur þú sagt mér um fyrirkomulag verzlananna og starfstíma ykkar verzlunarmannanna á fyrstu árum verzlunarinnar?
„Um það mætti ýmislegt segja, og margt þætti að líkindum fjarstæðukennt. Á vetrum byrjuðum við vinnu kl. 8 að morgni og unnum til kl. 8 að kvöldi, og þótti stuttur vinnutími. Engin upphitun var í búðum í þá daga, og var því oft svalt við afgreiðsluna. Minnist ég þó sérstaklega frostavetrarins mikla 1918, þegar við urðum að afgreiða og skrifa nótur með tvenna þykka ullarvettlinga. Mundi sumum þykja kynlegt að sjá afgreiðsludömurnar okkar nú til dags með slíkan útbúnað. Á sumrin voru verzlanir opnaðar kl. 7 og þá lokað eftir ástæðum. Oft voru búðirnar opnar fram yfir miðnætti og til kl. 2 að nóttu.

Allt, sem nöfnum tjáir að nefna var þá selt í sömu verzluninni, tvinnakefli og hveiti, sykur og sjóstakkar. Fyrsta sérverzlun hér var hins vegar verzlun Jensen Bjerg, sem þó var aðeins sumarverzlun. Hún var stofnuð 1908 og verzlaði með fatnað. Fyrsta raunverulega sérverzlunin hér í bæ var annars verzlun, er ég setti á stofn 1922 ásamt Halldóri Jónassyni og enn er rekin hér undir nafninu B-deildin.

Nær öll viðskipti voru þá lánsviðskipti, og þau lang mest við útlenda sjómenn. Ýmsir „gorkúlukaupmenn” stungu þá upp höfðinu hér, og gerðu þeir heiðarlegum verzlunarmönnum oft erfitt fyrir með því að skapa þann „móral”, að engir treystu siglfirzkum kaupsýslumönnum.

Allar vörur voru þá fluttar beint hingað og greiddar í innlendum afurðum eða erlendum peningum, er nóg var til af þá. Mest var flutt inn frá Englandi, Danmörku og Noregi.

Vöruverð var þá yfirleitt mjög sanngjarnt, enda brátt mikil samkeppni.

Langt fram á annan tug aldarinnar fóru nær öll viðskipti fram á norsku, sem var ríkjandi mál við afgreiðsluborðið. Þýddi þá aldrei að segja Norðmönnunum rétt verð, heldur varð að hafa það hærra, og síðan var „prúttað”.

Ekki seldum við brennivín í búðunum á þeim árum, en norskan bjór eins og hver vildi hafa, og virtist hann koma mönnum að tilætluðum notum. Einnig seldum við súrsaft, sem ekki síður hressti mannssálina, og var þá oft glatt á hjalla við búðarborðið, sem var aðalsamkomustaður bæjarins, enda mátti þá aldrei loka búð, fyr en viðskiptavinirnir entust ekki lengur til að hanga þar, þar til 1920, að sett var reglugerð um lokunartíma sölubúða, og þótti mönnum þá „lúxus” að mega loka kl. 10.

Ekki kom það síður fyrir í þá tíð en nú, að verzlunarvörur þryti. Einkum er mér minnisstætt eitt sumar, þegar allar verzlanir voru gjörsamlega tómar á miðju sumri, en þá kom „Síríus” með vörur og voru þær rifnar út af vögnunum hjá okkur, þegar við vorum að keyra þær heim.

Á ýmsu gekk hjá verzlunarstéttinni á þeim árum. Bæði gátu menn átt þess von að verða vel efnaðir og „fallítt”.”

Getur þú ekki sagt okkur eitthvað meira af skiptum ykkar við útlendingana?

„Norðmenn voru í rauninni þeir, er svipinn settu á Siglufjörð yfir síldveiðitímann. Lífið byrjaði að vakna í júlí. Þegar skipin komu, fóru venjulega allir bæjarbúar að heilsa upp á „Nossarana”, en sömu skipin komu ár frá ári og sömu mennirnir. Íslendingar fóru um borð til Norðmanna og þeir aftur í land til Íslendinga, og lifðu allir í sátt og bróðerni.

Slegið var upp böllum á „plönunum”, venjulega að frumkvæði Norðmanna. Byrjuðu þeir þá með því að taka upp „nikkurnar” um borð hjá sér og spila nokkur lög. Þá hópuðust Íslendingarnir niður á „plönin”, en Norðmennirnir reru spilandi í land og hófst þá dansinn. Alltaf voru karlmennirnir miklu fleiri og urðu því að dansa hver við annan, og þótti þá alsæla að ná sér í kvenmann, og kom jafnvel fyrir, að það lagði þá vímu á menn, að þeir dönsuðu fram af „plönunum”.”

Höfðuð þið verzlunarmennirnir nokkurn félagsskap með ykkur á þessum árum?

„Jú, ég held nú það. Kaupmanna- og verzlunarmannafélag Siglufjarðar var stofnað 1918, og varð það um langt skeið aðalfélagið í bænum. Við héldum fundi, skemmtanir og fyrirmyndar böll. Fengum við þá lánaðan barnaskólann, og hófust skemmtanirnar venjulega með borðhaldi. Þá spilaði Tynes á „fíólín”, Dúi á orgel og Sóphus á allt mögulegt, og Guðmundur Hafliðason kom með harmónikuna, og þá gusu ekki upp reikningarnir á eftir.

Við höfðum okkar eigin fána, með vog öðrum megin og norðurhluta eyrarinnar hinum megin. Var það málað af mikilli snilld af Sigurþóri Magnússyni, þá verzlunarmanni hér.

Allir unnu sem einn í félaginu, og er óhætt að segja, að þar hafi verið samstilltir menn.”

Að lokum segir Andrés: „Ég vildi nota tækifærið til að koma því á framfæri við forráðamenn Verzlunarmannafélagsins nú, að þeir athuguðu, hvort fáni þessi er enn ekki til einhvers staðar og gerðu þá gangskör að því að ná honum aftur.”

Það var ótal margt fleira, sem Andrés Hafliðason drap á og hefði eflaust getað sagt okkur, en rúmið er takmarkað sem önnur gæði heimsins, og tíminn er einnig takmarkaður, annars hefði hann ekki losnað við mig næstu klukkutímana. Ég þakka fyrir upplýsingarnar og formæli í huganum tímanum og vinnunni, sem meina mér að njóta lengur skemmtunarinnar og fróðleiksins við að tala við Andrés Hafliðason um liðinn tíma.
Andrjes Hafliðason.

Andrjes Hafliðason.

Andrjesarhús í baksýn.

Andrjesarhús í baksýn.

[Fyrst birt í Siglfirðingi, 21. árgangur, 29. tbl., 31. júlí 1948, bls. 3.]

Mynd af Andrjesi Hafliðasyni: Úr bókinni Siglufjarðarkirkja 1932-1982, bls. 165. Ókunnur ljósmyndari.
Aðrar myndir: Ókunnur ljósmyndari.
Texti: Ekki vitað.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is