Siglfirsku vaxhólkarnir vekja athygli


Óhætt er að segja að umfjöllun Landans í Sjónvarpinu á sunnudagskvöld um vaxhólkana sem fundust á Siglufirði í sumar hafi vakið mikla athygli. Þar var flutt í fyrsta sinn upptaka á söng séra Bjarna Þorsteinssonar á laginu Það liggur svo makalaust ljómandi á mér, en hann gerði textann á stúdentsárum sínum. Textinn birtist fyrst á prenti 1894.

Í Landanum var einnig rætt við Theodór Eggertsson, sem hafði varðveitt vaxhólkana síðan faðir hans, Eggert Theodórsson, lést, árið 1984. Faðir Eggerts, Theodór Pálsson hákarlaskipstjóri, sem lést árið 1957, hafði með sér upptökutæki þegar hann kom til Siglufjarðar árið 1906, eftir þriggja ára dvöl í Vesturheimi. Hann tók upp raddir Siglfirðinga á sex hólka. Þetta voru þeir Ásgrímur Þorsteinsson meðhjálpari frá Kambi, Bjarni Þorsteinsson prestur, Christian L. Möller lögregluþjónn og Þorleifur Þorleifsson frá Siglunesi. Tækið mun hafa bilað árið 1909 og eru upptökurnar frá því fyrir þann tíma. Þess má geta að Theodór skipstjóri byggði hús sitt við Suðurgötu árið 1907 og því er hugsanlegt að tekið hafi verið upp þar.

Fyrir tveimur árum rakst Jónas Ragnarsson á það í Alþýðublaðinu frá 1960 að komið hefði verið með þessa vaxhólka til Reykjavíkur þá um haustið og stóð þá til að senda þá til Englands í afritun. Þrátt fyrir mikla eftirgrennslan á næstu mánuðum kom ekkert fram um það hvort hólkarnir hefðu glatast eða hvar þeir gætu verið niður komnir. Málið var oft rætt í ritnefnd ævisögu séra Bjarna og talið mikils virði ef hægt væri að finna þessa einu upptöku sem vitað var um með rödd hans og birta hana í tengslum við 150 ára afmælið 14. október 2011.

Í vor hafði Jónas samband við Njál Sigurðsson kvæðamann, sem er manna fróðastur um upptökur frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Njáll taldi ekki útilokað að hólkarnir væru á Siglufirði. Þá fór Jónas þess á leit við Sigurð Ægisson að hann kannaði hvað Theodór Eggertsson vissi um málið. Er skemmst frá því að segja að vaxhólkarnir komu í leitirnar hjá honum. Þann 19. júlí afhenti Theodór Sigurði töskuna með vaxhólkunum og fól honum að koma henni til varðveislu á opinberu safni, í samráði við þá sem best til þekktu.

Niðurstaðan var sú að afhenda Árnastofnun vaxhólkana. Fór Sigurður með þá þangað eftir verslunarmannahelgi og voru þeir settir í sömu geymslu og gömlu skinnhandritin. Rósa Þorsteinsdóttir fræðimaður hjá stofnuninni fór síðan með hólkana til Vínarborgar í lok síðasta mánaðar, þar sem þeir voru afritaðir. Arnold Bjarnason, barnabarn séra Bjarna, styrkti það verkefni rausnarlega.

Nýlega kom upptökutæki Theodórs Pálssonar í leitirnar og er vonast til að það verði til sýnis á Siglufirði næsta sumar.

Fljótlega verður farið að rannsaka hinar upptökurnar, hreinsa þær og greina, en við fyrstu hlustun virðast þær einnig vera mjög athyglisverðar.

Siglfirsku upptökurnar frá árunum 1906-1909 eru taldar þær næstelstu sem varðveist hafa hér á landi og þær langelstu af Norðurlandi (áður voru upptökur frá árinu 1924 taldar þær elstu norðlensku).

Í hádegisfréttum Útvarpsins á mánudag var greint frá því að þessi fundur breyti íslensku tónlistarsögunni vegna þess að Bjarni var að syngja dægurlag, en áður hafði elsta varðveitta upptaka af dægurlagi verið talin vera frá árinu 1933.

Baggalútur leggur svo út af þessu öllu á sinn sérstaka hátt á mánudaginn.

Rósa Þorsteinsdóttir hjá Árnastofnun handleikur hólkana þegar Sigurður Ægisson kom með þá suður í ágúst.


Gísli Sigurðsson prófessor er til hægri á myndinni.

Mynd og texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is