Siglfirskar íþróttahetjur


Aðsent (Þórarinn Hannesson):

Það er örugglega langt síðan það gerðist, ef nokkurn tíma, að þrír Siglfirðingar hafi keppt samtímis á Íslandsmóti fullorðinna í frjálsum íþróttum, en sú varð raunin um nýliðna helgi. Það voru þau systkin Snævar Már og Guðrún Ósk (Gests Hanssonar og Huldu Friðgeirsdóttur) og svo Rakel Ósk (Björns Jónssonar og Helenu Dýrfjörð) sem kepptu í Laugardalnum í Reykjavík ásamt mörgu öðru af besta frjálsíþróttafólki landsins og stóðu þau sig mjög vel.

Snævar Már keppir fyrir Ungmennafélagið Glóa og tók hann þátt í 800 og 1500 metra hlaupum. Hann hljóp mjög vel og bætti tíma sína í báðum hlaupunum um tæpar 6 sekúndur; hann varð 10. í 800 metra hlaupinu og 9. í 1500 metra hlaupinu. Rakel byrjaði að æfa frjálsar íþróttir síðast liðinn vetur á Akureyri og keppir fyrir Ungmennafélag Akureyrar (UFA). Hún er mjög efnileg frjálsíþróttakona og hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma eins og árangur hennar á þessu móti ber með sér því hún gerði sér lítið fyrir og náði m.a. 4. sæti í hástökki og 7. sæti í 200 metra hlaupi. Að lokum er það hin stórefnilega Guðrún Ósk sem er komin í fremstu röð aðeins 16 ára gömul. Hún keppir fyrir Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og varð hún m.a. 6. í 100 metra grindahlaupi og 7. í langstökki. 

Frábær árangur hjá þessu efnilega íþróttafólki og sannarlega hvatning fyrir yngri iðkendur að fylgjast með gengi þeirra.  

Guðrún Ósk er ein þriggja siglfirsku afreksmannanna sem hér um ræðir.

Mynd og texti: Þórarinn Hannesson | hafnargata22@hive.is


image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is