Siglfirsk verk á uppboði


Á listmunauppboði hjá Gallerí Fold í síðustu viku voru seld tvö verk sem tengjast Siglufirði, gamalt málverk og líkan af skipi.

Málverkið var eftir Sigríði Sigurðardóttur listmálara (f. 1904, d. 1971) en hún var um tíma eiginkona hins þekkta teiknara Tryggva Magnússonar. Þetta verk er 30×42 sentimetrar og var selt á 27.500 krónur. Margt bendir til þess að málverkið sé frá fjórða áratug síðustu aldar. Hluti af Eyrinni sést og Hvanneyrarskál og umhverfi hennar. Skip er við Hafnarbryggjuna og gæti það verið Dettifoss sem var í förum frá 1930 til 1945. Skorsteinninn á miðri mynd var við Rauðku og hann var felldur 1981 en stóri skorsteinninn við Ríkisverksmiðjurnar er ekki kominn (reis 1946). Svo virðist sem ekki sé komið þak á kirkjuturninn. Ef það er rétt er málverk Sigríðar frá sumrinu 1931.

Skipslíkanið gerði Siglfirðingurinn Grímur Karlsson (f. 1935), sonur Karls Dúasonar sjómanns og Sigríðar Ögmundsdóttur. Líkanið er 60 sentimetra langt og var slegið á 175 þúsund krónur. Skipið er Þormóður rammi, SI 32, tuttugu tonna trébátur. Hinn 26. nóvember 1950 fékk báturinn á sig brotsjó og strandaði síðan skammt innan við Sauðanes. Skipverjunum fimm var bjargað við illan leik. Þetta var ekki fyrsti siglfirski báturinn sem bar nafn landnámsmannsins. Annar strandaði út af Hrauni á Skaga í mars 1942 og komust skipverjarnir fimm til lands á lóðabelgjum.

thormodur-rammi-si-32

Myndir: Gallerí Fold (myndlist.is).
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]