Siglfirðingurinn og kampselurinn


Fimmtán ára gamall Siglfirðingur á myndina sem prýðir forsíðu Morgunblaðsins í dag. Hún er af kampsel, sem var að spóka sig inn af Pollinum á Akureyri fyrir nokkrum dögum, lá þar á ísspöng.

Útbreiðsla kampsela er bundin við íshöfin á norðurhveli jarðar, allt að 80°N, og eru þeir ein aðalfæða ísbjarna. Fullorðin dýr geta orðið allt að 2,7 m löng og rúmlega 400 kg að þyngd. Urturnar eru víða stærri en brimlarnir.

Kampselur er sjaldgæfur flækingur við strendur Íslands og er þá oftast einn á ferð enda ekki mikil félagsvera. Hann er algengastur fyrir norðan og austan land að vetrarlagi, en hefur þó fundist víðar, m.a. við Elliðaárnar í Reykjavík.

Íslenskt nafn sitt, en hann er einnig nefndur granselur og kampur, hefur selurinn fengið af skegginu eða veiðihárunum sem eru áberandi löng. Þau notar hann til að greina yfirborð sjávarsetsins, þar sem aðalfæðu hans er að finna.

Ljósmynd: Mikael Sigurðsson │ [email protected]
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]
Fylgja: Skjáskot af forsíðu Morgunblaðsins í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]