Siglfirðingur.is er fjögurra ára í dag


Siglfirðingur.is er fjögurra ára í dag. Hann fór af stað 3. júlí 2010 eftir um mánaðar undirbúningstíma. Horft er mestan partinn á það jákvæða í samfélaginu og reynt – einkum í lengri greinum og viðtölum – að hafa mannlega þáttinn í fyrirrúmi, söguna, arfleifðina og það að fræða. Notendur (IP-tölur) frá upphafi eru 152.777 talsins.

Vefurinn er reyndar búinn að vera í hægagangi undanfarið, því tíðindamaður er í sumarfríi og verður það til 26. júlí.

Oftast hafa fréttir og tilkynningar verið settar inn daglega og flestar hafa þær orðið sjö, en þetta ræðst auðvitað mikið af því hvort eitthvað er um að vera í bæjarlífinu, sem og ráðstöfunartíma umsjónarmanns.

Fyrsta árið (2010) heimsóttu einstaklingar frá 69 þjóðlöndum sex heimsálfa – Evrópu, Afríku, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu – vefsvæðið. Núna er sú tala komin í 100.

Flestir notenda eru í löndum Evrópu (143.440), næstflestir í Norður-Ameríku (8.421), í þriðja sæti er Asía (465), í því fjórða Suður-Ameríka (232), í því fimmta Eyjaálfa (116) og í því sjötta Afríka (67). Ekki hefur verið unnt að staðsetja 36.

Af þessum notendum öllum búa 132.530 hér á landi, næstflestir í Bandaríkjunum eða 7.606 og þriðji stærsti hópurinn er í Noregi eða 2.764.

Fréttir og tilkynningar sem birst hafa eru orðnar 3.130 að tölu, greinar 38, fróðleikskorn 17, viðtöl 15 og myndir 14.754.

Vikulegir notendur voru flestir 23.734.

Þessar upplýsingar eru allar komnar frá vefmælingarfyrirtækinu Modernusi.

Siglfirðingur.is þakkar móttökurnar, ekki síst hinum fjölmörgu sem hafa lýst yfir ánægju sinni með þennan miðil og/eða sent honum efni til birtingar.

Facebooksíðan Siglfirðingur Siglufirði, sem er hliðarsíða við þessa, á í dag 2.375 vini.

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is