Siglfirðingakvöldið heppnaðist vel


Kornhlaðan við Bankastræti í Reykjavík var þétt setin á fimmtudagskvöldið þegar Siglfirðingafélagið efndi enn á ný til myndakvölds. Að þessu sinni var einnig lesið úr bókunum Svipmyndir úr síldarbæ og Snjóblinda.

Um áttatíu burtfluttir Siglfirðingar á öllum aldri voru þangað mættir. Rakel Björnsdóttir, nýkjörinn formaður Siglfirðingafélagsins, bauð gesti velkomna og kynnti dagskrána.

Örlygur Kristfinnsson las úr bók sinni Svipmyndir úr síldarbæ við mikinn fögnuð viðstaddra og var greinilegt að margir könnuðust við söguefnið. Ragnar Jónasson las úr spennusögunni Snjóblindu, sem gerist á Siglufirði, kom út í haust og mun verða gefin út í Þýskalandi á næsta ári. Í kaffihléinu bauð Eymundsson bækurnar tvær til sölu á sérkjörum og seldust tugir bóka.

Sýndar voru gamlar siglfirskar ljósmyndir og óskað upplýsinga um þær og fólkið á þeim, og allt skráð niður fyrir Ljósmyndasafn Siglufjarðar. Gunnar Trausti Guðbjörnsson stjórnaði sýningunni sem var bráðskemmtileg og minnti á sambland af miðilsfundi og listaverkauppboði. Það var ótrúlegt hvað gestirnir þekktu mörg andlit, gátu nefnt nöfn og ættfært fólk, hvort sem það var frá Siglufirði eða úr Fljótum eða Ólafsfirði. En ekki voru allir alltaf sammála. Í eitt skipti var fullyrt að mynd væri af Stebba í Grundarkoti en svo bauð annar betur, sagði að þetta væri Fúsi í Hlíð með barnabarn sitt og nafna. Stöku sinnum var málið afgreitt með því að segja að þetta væru ?aðkomumenn?. Í öðrum tilvikum var kallað upp: ?Þetta er mamma.? Karlmenn sem komnir voru yfir miðjan aldur voru glöggir á kvenfólkið frá síldarárunum en stundum heyrðist sagt: ?Þessi er of gömul fyrir mig.? Ef nöfnin komu ekki strax gátu sumir tilgreint önnur atriði eins og ?hún átti heima í gömlu mjólkurbúðinni?.

Fullvíst má telja að Siglfirðingafélagið haldi áfram með myndakvöldin og aldrei að vita nema einnig verði lesið úr nýjum bókum sem tengjast Siglufirði, þegar tilefni gefst til.

Rakel Björnsdóttir, formaður Siglfirðingafélagsins, setti samkomuna.

Örlygur Kristfinnsson las einn kafla úr nýútkominni bók sinni, Svipmyndir úr síldarbæ,

sem Siglfirðingurinn Kristján Kristjánsson (Rögnvaldssonar) í Uppheimum gefur út. 

Ragnar Jónasson, sem sagðist hafa komið fyrst til Siglufjarðar þegar hann var þriggja mánaða,

las úr fyrstu siglfirsku spennusögunni, Snjóblindu.


Ragnar og Örlygur árituðu bækur sínar fyrir gesti í Kornhlöðunni.


Eflaust þekkja Siglfirðingar mörg andlit í salnum.

Fremst er Gunnhildur Sigurðardóttir og á næsta borði Jóna Stefánsdóttir (móðir Örlygs).

Af öðrum má nefna Eirík Þóroddsson, Jónmund Hilmarsson og Kristján Möller. 

?Býður nokkur betur,? sagði Gunnar Trausti stundum

þegar komnar voru tillögur um nöfn á fólkinu á gömlu myndunum.

Heiðar Ástvaldsson og Jóhann Vilbergsson voru oft tillögugóðir.

Sumar gömlu myndanna voru í lit, eins og þessi af Ingibjörgu Eggertsdóttur,

sem var ein af duglegustu síldarstúlkunum á sínum tíma.

Myndir og texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is