Selnes-, Selvíkurnefs- eða Staðarhólsviti


Árið 1911 var settur upp stólpaviti við Siglufjörð til að lýsa leiðina inn fjörðinn að höfninni. Þessi gasviti var sömu gerðar og vitarnir sem komið var fyrir á Skarfasetri á Reykjanesi og Öndverðarnesi árið 1909 og á Langanesi árið 1910.

Selvíkurnefsviti austanvert við Siglufjörð var byggður árið 1930 á kostnað hafnarsjóðs Siglufjarðarhafnar. Á honum er 3 m hátt áttstrent norskt ljóshús úr járnsteypu. Í það voru látin díoptrísk 375 mm linsa og gasljóstæki. Árið 1961 var vitinn rafvæddur með orku frá ljósavélum og gastækin tekin úr notkun. Árið 1975 voru gasljóstækin aftur tekin í notkun og þá til vara til ársins 1990. Þá var hætt að nota ljósavél og gas en einnota rafgeymar settir í staðinn. Jafnframt var skipt um linsu í vitanum og sett í hann plastlinsa. Vitinn var sólarorkurafvæddur árið 2001.

Árið 1960 var settur upp radíóviti í timburskúr nærri vitanum og ljósavélar í öðrum skúr þar nærri. Fáum mánuðum síðar voru skúrar og tæki flutt að Arnarnesi við Ísafjarðardjúp og reynd þar. Árið eftir voru sömu tæki aftur sett upp við Selvíkurnefsvita en ljósavélunum komið fyrir inni í vitanum. Radíóvitinn var loks lagður niður árið 1975.

Selvíkurnefsviti er steinsteyptur ferstrendur turn, 5,5 m hár og 3×3 m að grunnfleti. Á turnveggjum eru fjórir krosspóstagluggar, stallað þakskepp efst með steinsteyptu handriði, settu bogagötum. Á anddyri eru tvennar dyr og einn gluggi en yfir því bárujárnsklætt skúrþak. Vitinn var hvítur upphaflega, með rauða lóðrétta rönd á miðjum vegg, en var síðar allur málaður gulur.

Selvíkurnefsviti

Innsiglingarviti í eigu sveitarfélags og umsjón Siglufjarðarhafnar.
Staðsetning: 66°09,6’ n.br., 18°52,0’ v.lgd.
Ljóseinkenni: Fl WRG 5 s.

Ljóshorn: Hvítt 027°-077° yfir leguna. Grænt 077°-153° yfir Sauðanes. Hvítt 153°-160° yfir fjarðarmynnið. Rautt 160°-205° yfir Helluboða.

Sjónarlengd: 13 sjómílur.
Ljóshæð yfir sjávarmáli: 20 m.
Vitahæð: 8,5 m.
Byggingarár: 1930, tekinn í notkun 1931.
Byggingarefni: Steinsteypa.
Hönnuður: Benedikt Jónasson verkfræðingur.

Vitaverðir

Gísli Guðnason, fæddur 16.10. 1903, 1942-1982
Haukur Gíslason, fæddur 27.09. 1925, 1982-1984

[Orðréttur kafli úr bókinni Vitar á Íslandi. Höfundar eru Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, og útgefandi Siglingastofnun Íslands, Kópavogi, 2002. Endurbirt hér með leyfi.]

Ljósmyndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is