Samgöngubætur í Nesskriðum


Síðastliðinn laugardag fóru félagarnir Skúli Jónsson og Björn Z. Ásgrímsson ásamt aðstoðarmönnum sínum út í Nesskriður til að koma þar fyrir keðjum í tveimur giljum sem reynst hafa göngumönnum erfið á þessari annars skemmtilegu gönguleið. Þeim til aðstoðar voru Ásgrímur Björnsson og Björn Magnússon sem báru mest af búnaði og verkfærum yfir hryggi og gil meðan Skúli og Björn undirbjuggu staðsetningar og festingar keðjanna. Guðmundur Einarsson flutti mannskap og búnað á gúmmítuðru sem Rúnar Marteinsson lánaði til verkefnisins. Farið var í land undir Helluhryggnum og gengið þar upp með búnað og bakkelsi.

Keðjum var komið fyrir báðum megin við gilið sem er næst helluhryggnum og nálægt svokallaðri efri leið. Því næst var sett ein keðja í næsta gil þar fyrir sunnan, norðanmegin í því gili. Að sögn Björns gekk verkið vel þrátt fyrir mikla bleytu og drullusvað enda rigndi meðan á verkinu stóð og nóttina áður.

„Þetta eru vandaðar keðjur með handföngum þar sem brattast er,“ segir Björn.

Nesskriður hafa ekki þótt árennilegar og hlotið illt umtal og kannski ekki átt það skilið. „Þetta er skemmtileg gönguleið og þegar hún er orðin auðveldari verður örugglega meira um að göngufólk fari hringinn, það er frá Ráeyri, út ströndina, upp Kálfsdalinn, niður Nesdalinn, út á Nes og Nesskriður til baka,“ segir Björn að lokum.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is