Samgöngubætur í Nesskriðum


Í blíðskaparveðri 3. september síðastliðinn fór Björn Z. Ásgrímsson ásamt þeim Ásgrími Angantýssyni og Hannibal Jónssyni út í Nesskriður í norðaustanverðum Siglufirði þeirra erinda að gera skriðurnar auðveldari yfirferðar. Að sögn Björns var verkefnið tvíþætt, annarsvegar að endurbæta það sem gert var í fyrra og hinsvegar að auðvelda aðgengi í fleiri giljum. „Við nutum einnig aðstoðar þeirra Skúla Jónssonar við undirbúning verkefnisins og Hjálmar Jóhannesson á bátnum Gústa sigldi með menn og búnað að Nesskriðum,“ segir Björn. Settar voru upp stikur á nokkrum stöðum svo heppileg gönguleið verði meira áberandi.

Það urðu miklar breytingar í giljunum eftir gríðarleg skriðuföll í lok ágúst í fyrra og þá sérstaklega við gilið sunnan við svonefndan Helluhrygg. Það gil er mjög erfitt yfirferðar, er mjög lausgrýtt og hefur dýpkað umtalsvert eftir hin miklu skriðuföll. Þeir félagar komu þar fyrir keðjum á báðum gilbörmum sem mun veita aukið öryggi og nauðsynlegan stuðning þegar farið er ofan í og upp úr gilinu. Við næsta gil til suðurs var settur kaðall og áberandi stika. Þetta gil er það fyrsta sem komið er að ef gengið er frá Siglufirði. Í tveimur minni giljum norðan Helluhryggs var borað fyrir stuttum keðjum í klettaveggjum sem eru einskonar höldur sem hægt að grípa til þegar skotist er fyrir gilin.

Nessskriðurnar hafa löngum hlotið slæmt umtal og að einhverju leyti heldur mikið. Ekki bætti úr skák síðastliðið vor þegar erlendir ferðamenn komust í ógöngur fyrir ofan skriðurnar. Eftir framkvæmdirnar ætti þessi ágæta gönguleið að vera auðveldari og öruggari fyrir vel flesta, að sögn Björns, en auðvitað þarf að fara varlega þar sem leiðin verður seint hættulaus, bætir hann við. Fyrir duglegt og brattgengið göngufólk verður, eftir ofangreindar samgöngubætur, álitlegur kostur að fara hringinn frá Siglufirði: Kálfskarð – Nesdalur – Siglunes – Nesskriður – Siglufjörður.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is