Samgöngubætur í Héðinsfirði


Laugardaginn 23. ágúst var lokið við gerð göngubrúar yfir Víkurá í Héðinsfirði. Framkvæmdir hafa í raun staðið yfir í nokkra mánuði eða frá því brúarbitinn var dreginn að brúarstæðinu í mars síðastliðnum. Í sumar var hafist handa við að grafa fyrir undirstöðum og steypt og að lokum var brúarbitinn færður til og komið fyrir á undistöðunum. Björn Z. Ásgrímsson og Skúli Jónsson hafa haft veg og vanda af þessari framkvæmd með stuðningi fjölmargra aðila.

Að sögn Björns hafa verið farnar margar ferðir til Víkur, bæði á sjó og landi, til undirbúnings verksins og við framkvæmdina. Þetta hafi verið ánægjulegt verkefni þó það hafi verið erfitt stundum en það hafi komið skemmtilega á óvart að það hafi verið mikill áhugi á þessari framkvæmd, strax og hún hafi komið til umræðu. Gönguleiðin út með Héðinsfirði, að austan, sé orðin vinsæl gönguleið og tilvalið að á við Slysavarnarskýlið í Vík. Það sé skjólgott í fallegu umhverfi við Víkurhóla og gott að hvíla sig áður en lengra sé haldið, t.d. ef göngufólk ætli að skoða Víkurdalinn eða hyggi á ferð áfram til Hvanndala.

„Þetta verður örugglega kærkomin samgöngubót fyrir fólk að þurfa ekki lengur að vaða ána en hún hefur oft verið erfið enda rennslið í henni mjög misjafnt og botn hennar erfiður,” segir Björn.

Vill hann nota tækifærið og þakka eftirtöldum aðilum fyrir veittan stuðning við framkvæmdina: „Landeigendum í Vík, Jonna Páls, Guðmundi Einarssyni, Guðna Sigtryggs, Sverri Júll, Ívari Arndal, Elínu Káradóttur, Sóleyju Ólafs, Rúnari Marteins og Hjálmari Jóhannessyni.”

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is