Sæþotuferðir við Tröllaskagann


„Bróðir konunnar átti eiginlega þessa hugmynd. Ég var búinn að vera að pæla lengi í slöngubátum, en vandamálið er að það þarf bæði vélstjóra og skipstjóra á þá, og þótt þeir séu fyrir 30 manns má aldrei fara út með fleiri en 12, þannig að það varð úr að ég hafði samband við umboðið syðra og keypti fjóra sæþotur, Yamaha Waverunner, og allt tilheyrandi, hlífðarfatnað, þráðlausan samskiptabúnað og annað,“ segir Halldór Guðmundsson, sem ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Þórisdóttur, og Sölva Lárussyni rekur fyrirtækið Fairytale at sea í Ólafsfirði. Facebook-síða þess ber sama heiti.

Alla jafna eru í boði tvenns konar ferðir hjá okkur, í eina og hálfa klukkustund og tvær og hálfa. Er þá miðað við frá því fólk er komið á svæðið og þegar það er komið úr gallanum, þannig að styttri túrinn er ekki nema 45 mínútur á þotunni, enda þarf að fara yfir öryggisreglur og annað áður en lagt er af stað, og hinn þá einn tími og 45 mínútur og nýtist þá í raun betur þegar upp er staðið,“ segir Halldór. Fyrirtækið hefur aðstöðu í Ólafsfjarðarhöfn.

Múlinn og Hvanndalabjarg

Sjö farþegar komast með hverju sinni. Og margt er hægt að skoða, bæði undir Múlanum, s.s. Hálfdánarhurðina, sem þjóðsagan segir að sé fyrir helli miklum þar sem tröll búa, og Mígindisfossinn, en hann er meira en 100 metra hár, og er talinn vera einn hæsti foss í Eyjafjarðarsýslu, sem og undir Hvanndalabjargi, hæsta standbergi á Íslandi, en það er um 630 metra hátt, og auðvitað fjölmargt á leiðinni þangað og til baka aftur. Ekkert annað fyrirtæki hér á landi er með viðlíka sæþotuþjónustu, vilja þau meina.

„Einnig bjóðum við fólki upp á sérsniðnar ferðir, ef því er að skipta, ef það er með eitthvað ákveðið í huga, ljósmyndun t.d., eða ef fólk vill fara að veiða þar sem enginn er, eða snorkla í einhverri víkinni eða þá kafa eða fara enn lengra, t.d. út í Héðinsfjörð. Þetta býður því upp á ýmislegt. Svo erum við með eina tuðru líka til að hengja aftan í þoturnar og draga fólk, og á hana komast 3-4 í einu,“ segir Guðrún.

Ekki þjóta heldur njóta

„Sæþotan mín er 3,45 cm á lengd og 110 cm á breidd, er með 1800-vél og á að geta náð 100 kílómetra hraða, en mér finnst þægilegast að sigla á 20-25 mílum. Þetta er eiginlega hálfgerður bátur, þetta er það stórt. Hinar eru aðeins minni og ekki nema 1047 kúbic og eiga að ná 55 mílna hraða, en fyrir óvant fólk er það allt of hratt. Í sjálfu sér er það heldur ekki stefnan að sigla sem hraðast heldur miklu fremur að gleyma sér í augnablikinu og því sem fyrir augu ber. Mottóið er: „Ekki þjóta heldur njóta“ segja þau hjónin. Draumurinn sé að geta sýnt fólki óspillta náttúruna og dýralífið á þessum slóðum, ekki síst þar sem ekki sé hægt að komast landleiðina.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is. og Fairytale at sea.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Skjáskot af greininni í Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is