Rúffskipið Farsæll afhent Safnahúsi Skagfirðinga


Föstudaginn 12. október síðast liðinn komu Njörður Jóhannsson á Siglufirði og Björg Einarsdóttir kona hans í Safnahúsið á Sauðárkróki til að búa um líkan sem Njörður hafði gert af rúffskipinu Farsæli. Hann var smíðaður í Haganesvík haustið og veturinn 1884-1885 og gerður út frá Felli í Sléttuhlíð. Hafði Njörður gert líkanið árið 2017 og þau hjón afhent Safnahúsinu það með gjafabréfi 22. janúar 2018 en nú var skipslíkaninu komið fyrir í sýningarkassa og endanlega frá því gengið. Í því tilefni var Nirði færður minjagripur að gjöf, unninn af listakonunni Lilju Gunnlaugsdóttur í Áshildarholti í Skagafirði, mynd skipsins brennd á birkikubb og til hliðar við hana innfelld ein króna sem var umsamið kaupverð líkansins. Smíði þess tók um 900 klukkustundir.

Njörður er ættaður frá Lambanesi og hefur um áratugaskeið fengist við smíði líkana af áraskipum og þilskipum úr Fljótum og Eyjafirði. Munu þau nú orðin hartnær 20 talsins. Hefur hann undir höndum mál og lýsingar þessa báta og skipa og endursmíðar þau í hlutföllunum 1:12. Er handbragð hans og nákvæmni við gerð þeirra með ólíkindum. Hefur hann unnið ómetanlegt verk með því að sýna okkur hvernig þessi skip og bátar litu út.

Á myndinni hér fyrir ofan er Þórdís Friðbjörnsdóttir forstöðumaður Safnahússins og héraðsbókavörður ásamt þeim hjónum Björgu og Nirði.

Njörður og Farsæll.

Myndir og texti: Hjalti Pálsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is