Risar sjávarins í heimsókn


Þegar undirritaður ók út á strönd í bítið í morgun sá hann nokkra hnúfubaka velta sér í haffletinum skammt frá landi og suma stökkva. Og hnýðingavaða fylgdi þeim eins og skugginn. Og dýpra úti var steypireyður á ferð en stefndi inn fjörðinn.

Ekki er ólíkegt að hvalirnir séu á eftir loðnu og rækju, því eins og fram kom í máli Péturs Bjarnasonar skipstjóra á Siglunesinu 20. febrúar síðastliðinn er loðna um allan sjó hér framundan og því erfitt að eiga við rækjuna, enda blandast allt meira og minna saman.

Ekki er algengt að sjá þessar sjávarskepnur hér, en skemmst er að minnast þess að háhyrningar litu í heimsókn 8. nóvember síðastliðinn, svo vera má að þetta verði algengari sjón í framtíðinni.

Ekki má gleyma því að hér á árum áður komu hvalir og háhyrningar stundum inn á fjörðinn, eins og séra Bjarni Þorsteinsson segir frá í Aldaminningunni: ?Milli 70 og 80 háhyrningar voru reknir inn á Siglufjarðarhöfn 19. maí 1917 og drepnir þar; var það hið mesta bjargræði, og fór víða um sveitir, allt til Reykjavíkur.?

Best er að fylgjast með þessum dýrum frá ristarhliðinu nýja á Strandarvegi, rétt utan við bæinn.

Þess má geta að hnúfubakur gerði sig heimakominn í höfninni á Húsavík í gær, eins og Timinn.is greindi frá, svo vera má að þetta tengist eitthvað.

Allt um það er tilkomumikil sjón að berja þessi tröll augum og kærkomið tækifæri að ná því úr bíl sínum. Og kostar ekkert í þokkabót.

Það var mikil bægslagangur þarna og ljóst að hnúfubakarnir eru í einhverju æti, hvað sem það nú annars er.

Og þeir halda sig á tiltölulega afmörkuðu svæði.

Hnýðingar voru að eltast við eitthvað líka.

Steypireyðurin er mun varari um sig og erfitt að nálgast hana.

Aðalfæða hennar er ljósáta, en sennilega er hún á eftir rækju hérna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is