Ríplarnir sanna gildi sitt


Snjóflóð féll á Siglufirði í síðustu viku, sem stöðvaðist á varnargarði fyrir ofan bæinn. Hefði hann ekki verið þar, hefði flóðið líklega náð að efstu húsum í bænum.

Flóðið féll líklegast þann 12. desember en varnargarðurinn er ofan Hávegar. Íbúar þar sem fréttastofa hefur rætt við urðu ekki varir við snjóflóðið að nokkru leyti og því má segja að varnargarðurinn hafi gert sitt gagn.

„Þetta flóð núna er það fyrsta þar sem það reynir á þessi varnarvirki í raun. Tvö ár eru síðan flóð féll á svipuðum stað en það fór ekki á garðinn sjálfan heldur stoppaði á veginum ofan við. Þetta náði vel upp á garðinn og það voru kögglar á dreif bæjarmegin við garðinn. Það er merki um að það hafi verið mikill hraði á þessu,“ segir Gestur Hansson, snjóflóðaeftirlitsmaður Veðurstofunnar á Siglufirði.

Vel þarf að fylgjast með snjóalögum núna, en undanfarið hafa fallið nokkur lítil flóð á Tröllaskaga.

„Núna er töluverð úrkoma og blautur snjór í bænum. Uppi á fjalli er töluvert kaldara en það er veikleiki í snjóalögunum. Samt er ekki mikill snjór í fjallinu, aðallega í giljum, lautum og lægðum. Við erum alltaf með púlsinn á þessu og nú eru komin þrjú flóð í þessari hrinu sem hafa fallið,“ segir Gestur.

Viðvaranir hafa verið bæði á Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla og segir Gestur að veðurfar undanfarið hafi verið svolítið erfitt við að eiga.

„Þetta tíðarfar sem búið er að vera, það er að breyta okkar forsendum dag frá degi. Einn dag er veikleiki og svo daginn eftir er allt annað veðurlag og hitastig. Því er svolítið erfitt að meta þetta en það lærist,“ segir Gestur jafnframt.

Sjá líka frétt á Mbl.is.

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected]. Úr safni.
Texti: RÚV.is / Sigurður Ægisson | [email protected].

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]