Reitir með tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands


Í síðustu viku var forval dómnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands kynnt, en REITIR workshop og bókin REITIR: Tools for Collaboration eru sem eitt verkefni tilnefnd til verðlaunanna. Yfir hundrað tilnefningar bárust til Hönnunarverðlauna Íslands en aðeins fimm verkefni eru tilnefnd. Hin verkefnin eru veitingastaðurinn og barinn í Marshall-húsinu í Reykjavík, einkenni listahátíðarinnar Cycle, Orlofshús BHM í Brekkuskógi og stígurinn upp á Saxhóll. Það er hægt að lesa frekar um verkefnin á heimasíðu verðlaunanna verdlaun.honnunarmidstod.is. 

Þetta segir í tilkynningunni frá hönnunarmiðstöð Íslands:

REITIR WORKSHOP er alþjóðlegt samstarfsverkefni þeirra Ara Marteinssonar hönnuðar og Arnars Ómarssonar myndlistarmanns, sem stóðu fyrir þverfaglegum vinnusmiðjum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 2012-2016. Í kjölfarið kom út leiðarvísirinn, REITIR – TOOLS FOR COLLABORATION, sem var ritstýrður og hannaður af Sophie Haack. Þar er lesendum boðið að stela hugmyndum vinnusmiðjanna og þróa áfram. REITIR WORKSHOP byggir á samfélagslegri staðbundinni nálgun, skapandi ferli og mikilvægi samstarfs sem eru öflug verkfæri fyrir krefjandi verkefni framtíðar. Bókin REITIR – TOOLS FOR COLLABORATION er verkfærakista skapandi, þverfaglegs samstarfs og um leið heimild um hönnun samtímans.

Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt á fimmtudaginn kemur, 9. nóvember, kl. 21.oo, í Iðnó.

„Við erum náttúrulega alveg í skýjunum yfir þessum fréttum, enda erum við þarna á lista með miklum og metnaðafullum verkefnum. Þetta er þýðingamikil viðurkenning á starfi okkar og gefur bókinni enn meira vægi. Bókin hefur alveg slegið í gegn og selst víða um heim, en til að mynda hefur Listaháskóli Íslands byrjað að nota hana sem kennslubók í meistaranámi í hönnun,“ segir Arnar Ómarsson.

Hægt er að kaupa bókina í Alþýðuhúsinu eða í þessari vefverslun.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af aðstandendum Reita o.fl.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is