Reimleikar í kirkjunni


Berjadagar halda áfram í Ólafsfirði. Í kvöld, föstudaginn 18. ágúst, verða kammertónleikar í Ólafsfjarðarkirkju. Þeir bera yfirskriftina „Reimleikar“ og hefjast kl. 20.00. Tveir ungir og upprennandi tónlistarmenn, þau Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari, leiða þar saman hesta sína í stórkostlegum verkum: Fluttar verða tvær franskar fiðlusónötur eftir þá meistara Francis Poulenc og Camille Saint-Saëns. Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari verður þeim Bjarna og Huldu til fulltingis í píanótríói Beethovens sem nefnt hefur verið „Drauga-tríóið“.

Tónmál sónatanna tveggja á rætur að rekja til tónskáldahópa Parísarborgar á mismunandi tímum í tónlistarsögunni: Saint-Saëns tengdist Société Nationale de Musique og Francis Poulenc var meðlimur Les Six. Markmið Saint-Saëns og félaga var að koma franskri tónlist á framfæri en markmið Les Six var að vera andsvar við síðrómantísku stefnuna.

Fiðlusónata Poulencs var samin á árunum 1942-1943 til minningar um ljóðskáldið Federico Garcia Lorca og var tileinkuð fiðluleikaranum Ginette Neveu. Sónata Saint-Saëns var skrifuð árið 1885 og tileinkuð Martin Marsick sem var m.a. kennari Carl Flesch og Georges Enescu.

Hið fræga og dulúðuga Beethoven píanótríó sem kennt er við „Drauginn“ skrifaði hann í dvöl sinni á setri Marie von Erdödy barónessu og var verkið gefið út árið 1809. Tríóið hlaut þetta viðurnefni vegna þess að tónmálið í 2. kaflanum þótti framandi og sérkennilegt og festist viðurnefnið „draugurinn“ við það í tímans rás en Beethoven lagði um sama leyti drög að óperunni Macbeth.

Miðaverð 3.000 kr. (ókeypis fyrir börn) eða hátíðarpassi 9.500 kr./1.500 kr.

„Berjakokteill“ með lifandi tónlist og karókí hefst svo á Kaffi Klöru kl. 21.30. Margrét Hrafnsdóttir söngkona og Þorvaldur Már gítarleikari gefa forsmekk að laugardagskvöldinu og gestir og gangandi geta tekið í hljóðnemann.

Allir velkomnir.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is