Reiðnámskeið í Siglufirði


Undanfarið hefur staðið yfir reiðnámskeið í Siglufirði undir handleiðslu Herdísar Erlendsdóttur á Sauðanesi.

?Þetta byrjaði þann 27. júní og er þannig uppbyggt, að vanir og óvanir eru annan hvern dag,? sagði Herdís þegar tíðindamaður vefsins leitaði nánari frétta um þetta hjá henni. ?Krakkarnir í vanari hópnum eru 12 og hópnum er skipt í tvennt. Fyrir byrjendur eru tveir hópar og þeim er líka skipt í tvennt. Svo er einn hópur sama dag með krökkum sem eru aðeins vanari; alls eru þau 20 þannig að þau eru 32 í allt. 

Krakkarnir gera fyrst æfingu í gerðinu við hesthúsin og fara svo í útreiðartúr. Æfingarnar eru byggðar þannig upp að krakkarnir gera jafnvægisæfingar með keilum og fara berbak. Ýmsar aðrar æfingar eru gerðar með krökkunum: taumhald, rétt áseta, leggja á – fyrir þau sem það geta – og margar aðrar æfingar.  

Það er mjög gaman að vera með krökkunum og hestunum og sjá árangurinn, hvað þau læra og kynnast hestinum sem þau hafa, en best er ef hægt er að hafa sama barn á sama hesti.?

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar í vikunni.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is