Rakel Björnsdóttir: Skýrsla stjórnar Siglfirðingafélagsins starfsárið 2010?2011


Á aðalfundi 28. október 2010 var undirrituð kjörin formaður félagsins og stjórn félagsins óbreytt fyrir utan að Haukur Ómarsson kom nýr inn í stað Guðmundar Stefáns Jónssonar. Á fyrsta stjórnarfundinum 2. desember skipti stjórnin með sér verkum: Haukur Ómarsson, varaformaður, Jónas Skúlason, gjaldkeri Halldóra Jónasdóttir, ritari, Jóna Hilmarsdóttir, ritstjóri fréttablaðs, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, meðstjórnandi og Líney Rut Halldórsdóttir, meðstjórnandi.

Á aðalfundinum var skipuð fjögurra manna afmælisnefnd til að koma með tillögur að uppákomum á 50 ára afmælisári Siglfirðingafélagsins. Í nefndinni áttu sæti Guðmundur Stefán Jónsson, fyrrverandi formaður félagsins, Jóna Möller, Björn Z. Ásgrímsson og Líney Rut Halldórsdóttir. Nefndin skilaði tillögum sínum 10. desember sl. og er skemmst frá því að segja að flestar tillögur nefndarinnar urðu að veruleika á afmælisárinu. Stjórnin færir nefndinni þakkir fyrir vel unnin störf.

Samtals voru haldnir 7 stjórnarfundir á árinu.

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var ákveðið var að loka heimasíðu félagsins tímabundið en síðan var erfið viðureignar og standa vonir til að síðan gangi í endurnýjun lífdaga á næstu mánuðum.

Jólaballið var haldið í sal KFUM og K samkvæmt venju 27 desember. Um 200 manns sóttu jólaballið.

Jólaballsnefndina skipa Konný Agnarsdóttir, Elín Gísladóttir, Ragnar Thorarensen, Inga Margrét Skúladóttir og Hólmfríður Ólafsdóttir og eru þeim færðar kærar þakkir fyrir þeirra framlag.

Hinn 8. janúar stóðu nokkrir siglfirskir eldhugar fyrir Siglufjarðar dansleik á SPOT í Kópavogi þar sem hljómsveitirnar MAX, Jói samfestingur og Fílapenslarnir komu fram. Siglfirðingafélagið studdi þetta framtak með það fyrir augum að nálgast yngri Siglfirðinga og tókst ljómandi vel til og nokkrir nýir félagar bættust í hópinn.

Kaffi- eða fjölskyldudagurinn var haldinn í Grafarvogskirkju 22. maí. Halldóra Jónasdóttir fór fyrir kaffinefndinni og færum við henni og hennar fólki kærar þakkir. Um 300 manns mættu. Séra Vigfús annaðist guðsþjónustana en Jón Sæmundur Sigurjónsson, fyrrum formaður félagsins flutti hátíðarræðu og rakti sögu verslunar á Siglufirði. Hlöðver Sigurðsson söng einsöng. Árgangar 1951, 1961 og 1971 veittu hjálparhönd og nóg var af bakkelsi með ?Siglónammibragði? eins og Jón Kjartansson, fyrsti formaður félagsins, sagði einu sinni.

Vinnan við hið mikla afmælisrit félagsins sem kom út um mánaðarmótin september/október hófst á vordögum. Ritnefndina skipuðu: Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Jóna Hilmarsdóttir, Jóna Möller, Jónas Ragnarsson, Kjartan Stefánsson og Leó R. Ólason. Blaðið leit síðan dagsins ljós um mánaðamótin september/október veglegra en nokkru sinni. Vel hafði gengið að safna auglýsingum og af nógu var að taka efnislega svo blaðið varð 84 síður. Meðal efnis í blaðinu er saga félagsins í 50 ár rakin af Jónasi Ragnarssyni, viðtal við fyrrum formenn, viðtal við brottflutta Siglfirðinga undir heitinu ?Það er alveg sama hvar Siglfirðingur sefur?, Aðalgata heimsins og Hungurtúrinn á Hafliða. Stórkostlegt blað og er ritnefndinni þökkuð vel unnin störf.

Fimmtíu ára afmælisárshátíð félagsins var síðan haldin með bravúr 22. október sl. um 470 gestir sóttu árshátíðina sem haldin var á Broadway. Afmælisnefndina skipuðu þau Björn Z. Ásgrímsson, Líney Rut Halldórsdóttir, Helgi Svavar Helgason og Jóhann Möller. Gylfi Ægis tróð þar upp ásamt Megasi og Rúnari og Anna Lára, Bryndís Bára og Lindin tær hljómuðu af hvers manns vörum. Hljómsveitirnar Stormar og Max léku fyrir dansi og var mikið fjör og mikil sveifla. Árshátíðarnefndin stóð fyrir happdrætti sem reyndist hin fínasta fjárölfun fyrir félagið. Eru árshátíðarnefndinni færðar kærar þakkir fyrir framlag þeirra.

Félagar eru nú 2400 talsins en stöðugt er unnið að því að ná til nýrra félaga. Hugmyndir eru uppi um að fara í heildræna endurskoðun á félagatalinu. Í formannstíð Ólafs Ragnarssonar var grunnurinn að félagatalinu gerður og átti Anna Laufey frænka mín heiður af því. Jónas Skúlason hefur síðan unnið að stöðugum endurbótum , fyrst þegar Reykjavík og ?nágrenni? var víkkað út til að ná til stærra svæðis (Borgarnes, Keflavík, Selfoss, höfuðb.svæðið og allt þar á milli). Við síðustu breytingu á heiti félagsins í Siglfirðingafélagið var tekinn einn einstaklingur í hverju húsi á Siglufirði og settur nauðugur viljugur í félagið. Þrátt fyrir að félagatalinu hafi verið vel viðhaldið er ljóst að margir hafa dottið milli skips og bryggju og er ætlunin að breyta því. Stjórnin gerir sér vonir um að ná til um 300 nýrra félaga með þessu móti.

Jólaballið verður á sínum stað og er alltaf haldið 27. desember, daginn eftir annan í jólum. Í ár ber 27. desember upp á þriðjudag og verður þá ballið haldið kl. 17. Hljómsveitin Fjörkarlarnir skemmtir eins og fyrri ár og er búist við mikilli þátttöku eins og síðustu ár.

Eldhugarnir sem stóðu að Siglfirðingaballinu á Spot í fyrra ætla að endurtaka leikinn og er ráðgert að halda dansleik aftur í lok mars. Þar sem að aðkoma Siglfirðingafélagsins að dansleiknum í fyrra lukkaðist mjög vel mun stjórnin skoða það gaumgæfilega að endurtaka leikinn í ár.

Kaffidagurinn verður síðan haldinn 20. maí en 20. maí er akkúrat á sunnudegi næsta ár. Biðlað verður til árganga 1952, 1962, 1972 og 1982 um aðstoð við bakstur og almenna aðstoð.

Það er þess virði að gefa því gaum að skoða hvort félagið ætti að gera meira að því að koma að hinum ýmsu uppákomum í formi styrkja og með því að auglýsa viðkomandi viðburð í fréttablaðinu og með útsendingu á netpóstlista félagsins. Til dæmis gafst það mjög vel að koma að Siglfirðingaballinu á Spot á þennan hátt og styðja um leið við bakið á þeim Siglfirðingum sem önnuðust framkvæmdina. Má hér t.d. nefna Siglufjarðargolfmót sem haldið var í fyrsta sinn um mánaðarmótin ágúst/september sl. og ætlunin er að halda enn stærra mót að ári. Að þessum móti standa siglfirskir einstaklingar og áhugavert er fyrir félagið að skoða möguleika á samstarfi hér.

Rakel Björnsdóttir.

Mynd: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

Texti:
Rakel Björnsdóttir
| rakelbj@simnet.is
.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is