Rakel Björnsdóttir er nýr formaður Siglfirðingafélagsins


Á aðalfundi Siglfirðingafélagsins sem haldinn var í Kornhlöðunni, Bankastræti 2, í Reykjavík í fyrradag, var Rakel Björnsdóttir kosinn nýr formaður. Er hún jafnframt fyrsta konan til að gegna þessu embætti frá því félagið var stofnað, 14. október árið 1961.

Rakel er dóttir Björns Jónassonar og Bettýar Ingimarsdóttur. Stjúpmóðir hennar er Ásdís Kjartansdóttir.

 

Rakel ólst upp á Háveginum en flutti á Suðurgötuna árið 1977 og svo 16 ára á höfuðborgarsvæðið til að fara í Verslunarskólann. Í dag býr hún í Garðabæ ásamt þýskum eiginmanni sínum, Thomasi Fleckenstein, og tveimur börnum, Maríu Lísu 12 ára og Birni 10 ára.

Rakel er viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem aðstoðarverkefnisstjóri við að undirbúa þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt á næsta ári.

Hún hefur starfað með Siglfirðingafélaginu í 10 ár, þar af 8 ár í stjórn og 4 ár sem varaformaður.

Umsjónarmaður vefsins hafði samband við hana í gær og spurði hana út í framtíðina, áherslur og annað. Kveðst hún einfaldlega ætla að halda áfram því frábæra starfi sem Guðmundur Stefán Jónsson hafi stýrt undanfarin 4 ár sem formaður, hlúa áfram að fjölskyldudeginum sem haldinn er í kringum afmæli Siglufjarðar og jólaballinu, og halda upp á 50 ára afmæli félagsins árið 2011 með pompi og pragt. Afmælisnefnd hefur verið skipuð sem skilar tillögum til stjórnar um fyrirkomulag afmælisárs og framkvæmd. Einnig er á dagskrá hennar að fjölga félögum úr 2300 í 3000, virkja yngri Siglfirðinga til þátttöku og styðja við Vildarvini og frekari uppbyggingu á Siglufirði.

Siglfirðingur.is óskar henni innilega til hamingju með þetta allt og farsældar við stjórnvölinn á komandi árum.

Mynd: Aðsend.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is