Ræða Kristjáns L. Möller í Héðinsfjarðarguðsþjónustunni


Ræða Kristjáns L. Möller, sem hann
flutti í guðsþjónustunni í Héðinsfirði á sunnudaginn var, 3. október,
vakti mikla athygli, en þar rakti hann sögu byggðarinnar frá öndverðu.

Siglfirðingur.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta hana.

Hún var á þessa leið:

Góðir tilheyrendur.

Það er undarleg en góð tilfinning að
standa hér í Héðinsfirði í guðsþjónustu sunnudaginn 3. október árið
2010, eftir u.þ.b. fimm mínútna akstur frá byggðakjörnum okkar, hér sitt
hvoru megin við Héðinsfjörð. Af þessu tilefni er það bæði fróðlegt, og
ekki síður þarft, að láta hugann reika aftur í tímann og hugsa til baka –
hugsa til lífsbaráttu þeirra sem hér bjuggu fyrr á tímum.

Héðinsfjörður hefur verið í eyði í
tæplega 60 ár, en þar var lengi blómlegt mannlíf, búskapur og útgerð.
Þetta hérað á sína sögu eins og aðrar byggðir hér í nágrenninu en  þar
reyndi oft meira á bændur og búalið við erfiðar aðstæður í samgöngum og
snjóþyngslum á löngum vetrum en ýmsa aðra.

   

Í Landnámabók segir að Helgi magri hafi numið allan Eyjafjörð ?milli
Sigluness og Reynisness,? Þormóður hinn rammi hafi ?numið land á
Siglunesi og Siglufirði? og Ólafur bekkur numið Ólafsfjörð og ?alla dali
fyrir vestan Ólafsfjörð, suma til móts við Þormóð.? Af þessari frásögn
er ekki gott að sjá hver nam Héðinsfjörð.

 

Í Svarfdælasögu er talað um Héðin frá
Héðinsfirði og þar kemur fram nafn fyrsta bóndans í Héðinsfirði, sem
sögur fara af, og er fjörðurinn við hann kenndur.

Á 19. öld öld og fram um miðja 20. öld
voru oftast nær fimm býli í byggð hér í Héðinsfirði. En áður var þessi
fagri fjörður í eyði af völdum hallæra og annarra plága svo árum og
áratugum skipti. Bærinn Vík stóð út með firðinum að austanverðu. Innar
voru jarðirnar Vatnsendi, Grundarkot og Möðruvellir. Að vestanverðu í
firðinum var aðeins eitt býli sem hét Ámá, en þar er lítið undirlendi.
Fornar heimildir nefna nokkur fleiri bæjarnöfn. Hægt er að telja upp 16
býli eða kot, frá ýmsum tímum, sem voru í byggð um stundarsakir. Má þar
sem dæmi nefna Bakkakot, Brímakot, Geirhildargarða, Sandvelli,
Helluskála og Melavík.

Vík var eitt helsta býlið í
Héðinsfirði og jafnframt það eina sem hafði lendingarskilyrði fyrir báta
Héðinsfirðinga. Vík fór í eyði árið 1951 síðust jarða í firðinum.

Næsti bær fyrir innan Vík var
Vatnsendi sem stóð við suðurenda hins mikla stöðuvatns. Í fjallinu ofan
bæjarins eru Vatnsendahnjúkar og ef ég man rétt fara göngin héðan frá
Héðinsfirði og inn í Ólafsfjörð í gegnum Vatnsendahnjúk hér í byrjun.

Innsti bærinn að austan í Héðinsfirði hét Möðruvellir og skammt þaðan, nokkru utar, Grundarkot.

Í fjöllunum upp af Möðruvöllum er
allhár hnjúkur sem kenndur er við bæinn og heitir Möðruvallahnjúkur. Þar
inn frá fjallinu er Möðruvallaháls og býlið Ámá sem var innst í
Héðinsfirði að vestan.

Ekki er hægt að vera í Héðinsfirði án
þess að nefna Hestfjallið hér vestan við sjálfan fjörðinn en austan í
Hestfjalli, norðarlega, varð hið sorglega og mikla flugslys 29. maí
1947. Það var í svartaþoku að Douglas-Dakota flugvél Flugfélags Íslands,
sem var á leið frá Reykjavík til Akureyrar, rakst á fjallið í
svokölluðum Vogatorfum Þarna fórust alls 25 manns, fjögurra manna áhöfn
og tuttugu og einn farþegi.

Mér hefur hér verið tíðrætt um jarðir
og býli hér í Héðinsfirði en ekki minnst á neina ábúendur. Ég vil gera
eina undantekningu á því og nefna til Jón nokkurn Magnússon bónda einn
hér í firðinum sem bjó á Vatnsenda og í Vík um aldamótin 1800.

Hann orti sveitarljóð þar sem hann
lýsir gagni og gæðum þessarar byggðar, bæði til sjós og lands, en vel að
merkja hann nefnir ekki neina annmarka. Í ljóði þessu segir hann meðal
annars:

 

Björg þar mikil berst á land,

blessað maður heillastand,

heilagfiski, hákarlinn,

hrognkelsi og selurinn.

Silungur sællegur,

sést þar líka í hverri vík

langmest er af þorski þó,

þar, sem veiða menn úr sjó.

Eins og fram kemur í þessu erindi var
sjósókn mikið stunduð frá Héðinsfirði, þrátt fyrir mjög erfið
hafnarskilyrði.  Í Vík var aðallending bátanna og verstöð
Héðinsfirðinga, eins og áður sagði.

Ekki fer sögum af samgöngumannvirkjum í
sambandi við útgerðina í þessari verstöð þar til vorið 1928. Þá var það
að Þorsteinn Jónsson, kaupmaður á Dalvík, byggði bryggju og sjóhús. Er
talið að það hafi verið eina bryggjan sem byggð hefur verið þar. En það
er af bryggjunni og sjóhúsinu að segja, að sjórinn tók hvort tveggja í
aftakabrimi 27. október 1934.

Tókuð þið eftir ártalinu 1928, hvað
gerðist þá, jú ég var að nefna það að þetta var árið sem fyrsta
samgöngumannvirkið var byggt hér, en ekki með stuðningi ríkisins ?
heldur fyrir eigin reikning þess sem það byggði.

Og nú, 82 árum síðar,  hefur verið
byggt  annað samgöngumannvirki hér í Héðinsfirði, heldur stærra í sniðum
en hið fyrsta, og tekið í notkun 2. október árið 2010.

Héðinsfjarðargöng hafa loksins verið
fullgerð og langþráður draumur um varanlega samgöngubót milli
Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefur ræst.

Eyjafjörður og allar byggðir hans hafa nú verið tengdar saman og svæðið orðið eitt atvinnu- og samgöngusvæði

Þetta er bylting í samgöngumálum okkar. og landsins alls.

Gerð Héðinsfjarðarganga átti sér
langan aðdraganda en Sverrir Sveinsson, fyrrverandi veitustjóri, hreyfði
málinu fyrst á Alþingi fyrir 20 árum. Segja má að frá þeim tíma og fram
að fyrstu sprengingu hafi verið stöðugur þrýstingur á verkefnið af
hendi bæjaryfirvalda. Ég vil sérstaklega þakka Sverri fyrir hans framlag
til verkefnisins og persónulegar þakkir fær hann frá mér fyrir
hvatningu og mikinn áhuga á framgangi þess meðan ég var
samgönguráðherra.

 

Áður hafði hins vegar á ráðstefnu
Verkfræðingafélags Íslands, árið 1981, komið fram hugmynd um að tengja
byggðir við utanverðan Eyjafjörð saman með jarðgöngum, og haustið 1989
voru gerðar áætlanir um fjögurra kílómetra löng göng á milli
Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Hugmyndin þróaðist síðan áfram í það sem nú blasir við.

Framkvæmdir hófust 30. sept 2006 þegar
þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sprengdi fyrstu
sprenginguna í Skútudal.  Sprengt var út í Héðinsfjörð 3. apríl 2008 og
slegið í gegn í Ólafsfjarðarhlutanum 9. apríl 2009. Ég varð þess
heiðurs  aðnjótandi að sprengja þessar tvær síðari sprengingar, og það
eru ógleymanlegar stundir.

Verkið þokaðist áfram en hægar en
áætlað var og ýmis ófyrirséð atvik urðu til þess að fresta varð opnun
ganganna frá upphaflegri áætlun, þann 10. desember 2009.

Með nýrri verkáætlun var stefnt að
opnun ganganna síðastliðið sumar og vissulega voru það mikil vonbrigði
að það tókst ekki. Mest er þó um vert að verkið kláraðist og það var
ekki sjálfgefið eftir mikil áföll í fjármálum landsins. Framlög til
samgöngumála hefur þurft að skera mikið niður undanfarin ár, verðbólga
og verðhækkanir  hafa tekið sinn toll, að ekki sé minnst á gengishrun
íslensku krónunnar.

Segja má  að verkefnið hafi verið í einskonar gjörgæslu samgönguyfirvalda allt frá hruninu í október 2008.

Ég hef nú þessum tímamótum staldrað
aðeins við þessi tvö  samgöngumannvirki Héðinsfjarðar, þ.e. bryggjuna
árið 1928 og Héðinsfjarðargöngin nú í gær.

Það er merkilegt fyrir fyrrverandi
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að standa hér í þessum eyðifirði og
rifja þetta upp, þ.e. samgönguleysið og sögu byggðar sem fór í eyði,
líklega vegna þess.

Þetta er merkilegt og það var mér líka
einstök upplifun að standa hér í hittifyrra með Elínu Þorvaldsdóttur
frá Vatnsenda og hlusta á lýsingu hennar og ræða við hana um það þegar
fjölskylda hennar flutti  burt frá þessum stað árið 1949.
Flutningstíminn var ekki valinn af handahófi því beðið var þess tíma
þegar féð hafði verið heimt af fjalli. Ásgrímur Sigurðsson, skipstjóri
sem margir muna eftir, bróðir Þorvaldar, tók að sér flutningana á bát
sínum.

Vík fór svo í eyði árið 1951.

Upprifjanir á sögum héðan sýna að
lífsbaráttan hefur verið þung og erfið vegna mikilla snjóþyngsla á
veturna og samgönguleysis. Lítum á eitt dæmi:

Oft kom það  fyrir að bæi fennti í
kaf. Þannig var það árið 1830. Hjónin Höskuldur Jónsson og kona hans
Guðný Árnadóttir bjuggu þá í Grundarkoti. Hjálmar Jónsson skáld skráði
frásögu um þetta, og ævisögubrot Höskuldar, og skáldið Gunnar Gunnarsson
skrifaði einnig smásögu sem byggð er á sömu atburðum og heitir ?Á botni
breðans.? Forvitnilegt er að grípa niður í frásögn Höskuldar í
Sagnaþáttum Bólu-Hjálmars en þar sést glöggt hve líf hefur verið hart í
Héðinsfirði,  ekki síst á snjóþungum vetrum. Gefum Höskuldi orðið:

?Næsta vetur þar eftir fór ég með
Gísla nábúa mínum Guðmundssyni landveg gangandi að sækja korn, en þá við
héldum til baka aftur upp á fjallið, gjörði að okkur þá grimmustu
stórhríð, lágum við úti þá nótt, en daginn eftir var samferðamaður minn
mjög þjakaður og gat sig varla hrært. Tók ég þá það ráð, að ég batt utan
um hann bandi og upp á hans fætur þrúgur, togaði hann svo eftir mér og
komst til bæja að nóni, var þá með flýti farið undir kú og dreypt á hann
nýmjólk, lifnaði hann svo við. Nú leið vika, þangað til við náðum
heimilum okkar, bæði vegna lasleika mannsins og hríðanna.

Kot mitt hafði fennt í kaf og fannst
ekki, þá til var komið. Hafði þá kona mín verið innilukt 18 dægur undir
þessari óttalegu ábreiðu með 2 börn og annað ekki af fólki. Kúnni og
kindunum hafði hún getað gefið, því undirgangur var til kindahússins og í
lækinn, en kýrin var í baðstofu.?

Eins og fram kom í frásögn Höskuldar
Jónsonar var það ekki tekið út með sældinni að búa í Héðinsfirði og
samgöngur við nágrannahéruðin voru miklum erfiðleikum háðar. Á vetrum
var oft ófært á sjó frá hafnlausri strönd og háfjöllin fönnum hlaðin og
alltaf erfið. Það hefur því ekki verið auðfarið til kirkju á Siglunesi
og síðar á Hvanneyri. Því mun snemma hafa verið byggð hálfkirkja í
Héðinsfirði. Stóð hún, að því sem talið er, vestan við ósinn á
Sandvöllum sem tilheyrðu jörðinni Vík. Sumir telja að kirkjuhúsið hafi
verið heima í Vík, en það mun vera misskilningur, enda engin örnefni til
þess.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls
Vídalíns, frá árinu 1712, segir svo um Vík: ?Hálfkirkja er hér og
embættisgjörð framin inn til bólunnar, þegar heimamenn og aðrir búendur í
Héðinsfirði voru til sacramentis, og betöluðu allir bændur í firðinum
til jafnaðar, prestinum á Hvanneyri 6 álna virði fyrir hvörja messu.?

Fátt er um heimildir frá fyrri tímum
um Héðinsfjörð og fólkið sem þar háði sína lífsbaráttu. Þarna hefur
lífið gengið sinn vanagang í blíðu og stríðu í þúsund ár. Annálaritarar
og sögumenn hafa lítið að segja frá þessari afskekktu byggð.

Hetjur hversdagslífsins frá fyrri tíð
eru grafnar og að mestu gleymdar. Við þjótum nú á bílum yfir svæði þar
sem grasið hefur vaxið yfir gengin spor og sjáum hér rústir og tóftabrot
sem eiga að minna okkur á muninn á þægindum nútímans og  striti
landsmanna á liðnum öldum. Okkur er hollt að gleyma ekki upprunanum og
að muna að þakka fyrir það sem vel er gert.

Héðinsfjörður.

Mynd af Kristjáni: Samfylkingin.

Loftmynd af Héðinsfirði: Ragnar Mikaelsson | msolba2@broadpark.no

Inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is