Pöddur í snjónum


Á nokkrum stöðum í bænum hefur sést mikið af litlum pöddum á ferð í
snjónum og hefur fólk jafnvel talið að þessu rigndi af himnum ofan, enda birtist þetta skyndilega, eins og þruma úr heiðskíru
lofti.

Siglfirðingur.is hafði af þessu tilefni samband við Erling Ólafsson
skordýrafræðing og áleit hann að þarna væru á ferðinni svokölluð mordýr
og kæmu þau að neðan, úr jarðveginum. Þetta mun vera alþekkt fyrirbæri
en menn vita ekki hvaða skilyrði nákvæmlega þurfa að vera fyrir hendi
til að dýrin fari á stjá.

Vafalaust spila hlýindi þar inn í, sem og raki. Mismikið er um þetta eftir blettum.

Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands er eftirfarandi fróðleik um þessi kvikindi að finna:

Mordýr (Collembola)

Mordýr eða stökkmor, eins og þau
kallast líka, eru ýmist fremur eða mjög smá jarðvegsdýr, 0,5-5 mm á
lengd. Margar tegundir eru ljósar á lit en aðrar í ýmsum litum, gulum,
fjólubláum, gráum, brúnum. Mordýr eru ýmist kúlulaga eða staflaga.
Aftarlega á afturbolnum hafa flest þeirra stökkgaffal sem þau nota til
að stökkva með.

Mordýr finnast hvarvetna, í alls konar
jarðvegi og gróðri, jafnvel innanhúss í blómapottum, og gegna mikilvægu
hlutverki við niðurbrot jurtaleifa.

Mordýr á Íslandi

Alls hafa 124 tegundir mordýra verið
nafngreindar frá Íslandi. Til skamms tíma voru þekktar 77 tegundir
héðan, en á síðastliðnum árum hefur norskur sérfræðingur á þessu sviði,
Arne Fjellberg, heimsótt landið nokkrum sinnum og hefur tegundum fjölgar
stórlega við það. Auk þess að hafa bætt fjölmörgum tegundum við
mordýrafánuna hefur Arne gert margar lagfæringar á eldri nafnanotkun.
Gera má ráð fyrir að tegundum eigi enn eftir að fjölga til muna, ef við
fáum áfram notið þessa ágæta manns. Mordýr eru ekki auðveld í greiningu
fyrir aðra en þá sem hafa tileinkað sér þessi fræði sérstaklega.

Tegundirnar tilheyra alls 14 ættum.
Þeirra stærst er ættin Isotomidae með 43 tegundir og Onychiuridae næst
með 30 tegundir. Aðrar ættir eru miklu fáliðaðri, með frá einni til 13
tegunda.

Hér má sjá eina af fjölmörgum tegundum mordýra.

Og hér er mynd af snjónum fyrr í dag.

Nærmynd af mordýrum: Fengin af Netinu.

Snjómynd: Halldór Logi Hilmarsson.

Inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Ívitnaður texti: Erling Ólafsson skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is