Píanótónleikar í Siglufjarðarkirkju

Sunnudaginn 15. júlí kl. 17.00 halda Alexander Edelstein og Björn Helgi Björnsson píanótónleika í Siglufjarðarkirkju. Flutt verða verk eftir Franz Schubert, Frédérik Chopin, Johann Sebastian Bach, Johannes Brahms, Ludwig van Beethoven og Sergei Rachmaninoff.

Alexander Edelstein er fæddur 1998. Ellefu ára hóf hann píanónám hjá Þórarni Stefánssyni í Tónlistarskólanum á Akureyri og útskrifaðist þaðan 2017. Hann tók þátt í píanókeppni EPTA (Evrópusambands píanókennara) 2012 og hlaut 1. verðlaun í sínum flokki. Sama ár hlaut hann fyrstu verðlaun sem einleikari í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna í Hörpu. Í EPTA-keppninni 2015 hlaut hann sérstök verðlaun fyrir besta flutning á verkinu Segulljós sem Anna Þorvaldsdóttir samdi fyrir keppnina.
Alexander hefur komið fram sem einleikari með hljómsveit og haldið allmarga einleikstónleika, meðal annars á Kirkjulistaviku Akureyrarkirkju á síðasta ári og á 75 ára afmæli Tónlistarfélags Akureyrar í vetur, og síðast nú í maí í Hofi. Hann lauk stúdentsprófi frá MA nú í vor en jafnframt stundaði hann nám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Maté og sótt marga masterklassa þar. Hann mun halda áfram námi þar næsta vetur.

Björn Helgi Björnsson er fæddur 2001. Hann hóf píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri 6 ára gamall, fyrst hjá Kolbrúnu Jónsdóttur og lauk grunnprófi hjá henni. Þar á eftir tóku við tveir erlendir kennarar á tveimur árum. Það var svo árið 2012 sem Lidia Kolosowski tók Björn Helga að sér og þar kláraði hann miðpróf og hefur verið á framhaldsstigi síðan 2014. Björn hefur oft á tíðum sótt masterclass tíma á yngri námsárum, meðal annars hjá Kristni Erni, Peter Maté og Haraldi Haraldssyni. Árið 2015 tók hann þátt í píanókeppni EPTA sem haldinn var í Salnum og komst í 5 manna úrslit.
Í sumar vinnur Björn Helgi að því að búa sig undir næstu EPTA-keppni sem fram fer í Hörpu í nóvember næstkomandi og hann heldur áfram námi við Tónlistarskólann á Akureyri næsta vetur. Björn Helgi er af siglfirskum ættum. Langafi hans var Björn Ólafsson Gottskálkssonar.

Mynd og texti: Aðsent.