Pæjumótið byrjað


Pæjumótið í knattspyrnu hófst í morgun inni á Hóli og er þetta í 20.
skiptið sem það er haldið. Þátttakendur eru stúlkur í 4., 5., 6. og 7.
flokki. Alls eru 96 lið hvaðanæva að af landinu skráð til leiks,
þ.e.a.s. 12 í 4. flokki, 20 í 5. flokki, 44 í 6. flokki og 20 í 7.
flokki. Mótið stendur fram á miðjan  sunnudag.

Fréttamaður tók nokkrar myndir af leikjum í dag en þær verða ekki birtar fyrr en á sunnudagskvöld, ásamt með þeim sem kunna að bætast við, og helgin gerð upp öll þá, a.m.k. hvað boltann varðar.

Þegar líður að kvöldi er ýmislegt annað í boði fyrir unga fólkið. Eitt af því var leikrit um Hans Klaufa, sem leikhópurinn Lotta setti upp á Blöndalstúni kl. 18.00. Sá var stofnaður árið 2006 og er með heimasíðu fyrir áhugasama (www.leikhopurinnlotta.is). Þar kemur fram að níu manns hafi tekið þátt í stofnun hans og er markmiðið að setja
upp skemmtilegar fjölskyldusýningar. Jafnframt hefur hópurinn ákveðið að halda
sig við sýningar utandyra og hefur sumarið verið valið sem sýningartími.

Áhorfendur, sem voru á öllum aldri, voru vel með á nótunum og skemmtu sér konunglega þegar Hans og félagar hlupu um siglfirska grasið í litfögrum búningunum og ærsluðust.  

Hér koma nokkrar myndir. Þær tala sínu máli.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is