Óvissa um Síldarævintýri


„Óvissa ríkir um framtíð hátíðarinnar Síldarævintýrið á Siglufirði sem haldin hefur verið ár hvert í aldarfjórðung. Siglufjarðarbær hélt lengst af utan um hátíðina en eftir sameiningu sveitarfélaga í Fjallabyggð hefur hátíðin verið í höndum sérstaks félags. Þau sem setið hafa í stjórn síðustu fimm árin ákváðu að hætta eftir síðustu hátíð en þrátt fyrir mikla leit hafa eftirmenn þeirra ekki fundist.

„Okkur fannst við vera búin að skila okkar til hátíðarinnar og samfélagsins,“ segir Anita Elefsen. Stjórnin sem starfað hafði í fimm ár ákvað að segja sig frá störfum eftir hátíðina í fyrra. Aðalfundur var auglýstur og leitað eftir frambjóðendum í stjórn. Ekkert framboð barst á aðalfundi og því var ákveðið að halda framhaldsaðalfund. Þá var niðurstaðan sú sama og áður, enginn gaf kost á sér til stjórnarsetu.

Gamla stjórnin ákvað að sitja eitt ár enn til að freista þess að fá nýja stjórn frekar en félagið legðist af, segir Anita. Stjórnin bókaði þó að félagið myndi ekki standa að hátíðinni í ár.

Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær styrkveitingar til fimm hátíða í ár. Berjadagar fá hálfa milljón króna, Blúshátíð 600 þúsund, Sjómannadagshátíð 200 þúsund til viðbótar við 600 þúsund krónur sem hún hafði áður fengið úthlutað og Þjóðlagahátíð fékk úthlutað 800 þúsund krónum. Hæstu úthlutunina fékk Síldarævintýrið, 2,75 milljónir, en sá styrkur var með fyrirvara vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framtíðar hátíðarinnar.

Bæjaryfirvöld skoða hugsanlega aðkomu sína að hátíðinni en engin ákvörðun hefur verið tekin um hana.“

RÚV greindi frá þessu í morgun.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: RÚV.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is