Óvenjuleg dúfa á Siglufirði

Blendingur turtil- og tyrkjadúfu á Siglufirði.

Nýverið sást óvenjuleg dúfa á Hvanneyrarhólnum á Siglufirði. Í fyrstu skiptust menn í tvær fylkingar varðandi greiningu. Annar hópurinn vildi meina að þetta væri ung turtildúfa (Streptopelia turtur), og réði það af hinum stóra og einkennandi hálsbletti, en hinn vildi meina að þetta væri ung tyrkjadúfa (Streptopelia decaocto). Yann Kolbeinsson fuglafræðingur var fyrstur til að átta sig á að þarna væri á ferðinni blendingur umræddra tegunda. Turtildúfa og tyrkjadúfa eru frændtegundir og er báðar að finna um mestalla Evrópu, Asíu og Norður-Afríku.

Skotin á farflugi

Turtildúfan er um 24-29 cm að lengd, 85-170 g að þyngd og kjörlendi hennar er bersvæði með runnagróðri, limgirðingum og skógarlundum, og hún verpir í kjarrþykkni, aldingörðum o.s.frv., að því er lesa má í bókinni Fuglar Íslands og Evrópu. Turtildúfan hefur átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum, þeim hefur fækkað um 78% í Evrópu og er í útrýmingarhættu í Bretlandi. Ástæður þess eru m.a. taldar vera breytingar á landnýtingu og að minna af korni fari til spillis á ökrum, en það korn nýttu margar fuglategundir sér til framfærslu. Auk þess er hún skotin mikið á farflugi sínu til vetrarstöðva sinna í Afríku, sunnan Sahara, og heim aftur.

Tyrkjadúfan er ívið stærri eða um 32 cm að lengd og 125-240 g að þyngd en kjörlendið er einkum borgir og bæir. Hún verpir yfirleitt í trjám en sums staðar þó á húsum og á jörðu niðri. Hún er upprunnin í Asíu en hefur breiðst hratt út um Evrópu á undanförnum áratugum, frá Balkanskaga, og er enn að. Hún er, ólíkt turtildúfu, ekki farfugl.

Blendingur staðfestur

Ritstjóri Siglfirðings hafði fljótlega eftir að dúfan sást hér samband við einn kunnasta fuglafræðing heims, hinn írska Killian Mullarney, sem er jafnframt mikilvirkur listamaður, hefur m.a. myndskreytt Collins Bird Guide, en texta þeirrar bókar, sem talin er bera höfuð og herðar yfir önnur sambærileg rit á enskri tungu, rituðu Lars Svensson og Peter J. Grant. Kvaðst hann telja, eftir að hafa skoðað myndir af siglfirsku dúfunni, allt benda til þess að um blending væri að ræða og mjög sennilega áðurnefndra tegunda, en sagðist jafnframt ekki hafa heyrt um dæmi þess annars staðar frá úti í náttúrunni. En auðvitað hlyti þetta að gerast endrum og sinnum enda tegundirnar náskyldar. Væri þetta búrfugl gætu svo enn fleiri tegundir komið til greina sem foreldri. Átti hann þar eflaust við branddúfu og hláturdúfu og fleiri sem eru mjög líkar turtildúfu og tyrkjadúfu.

Spurður að því hvort hnignun turtildúfu í Evrópu gæti hafa valdið því að ein hafi orðið að velja sér tyrkjadúfu sem maka sagði hann að það væri líklegra að slíkt gerðist ef báðar tegundir væru fáliðaðar eins og t.a.m. á Íslandi.

Hér mætti nefna að frá 1911-2012 hafa sést 211 turtildúfur hér á landi og frá 1964-2012 53 tyrkjadúfur. Turtildúfur hafa þó aldrei verpt á Íslandi svo vitað sé, enda að mestu haustflækingar, en tyrkjadúfur nokkrum sinnum.

Á sama tíma og blendingsdúfan var á Siglufirði sást til áþekkrar dúfu á Húsavík sem reyndist svo vera turtildúfa. Hún er þar enn. Þá hafa tvær tyrkjadúfur haldið til í Keflavík undanfarin tvö ár. Og þegar við bætist að einungis lítið brot af öllum þeim fjölda hrakningsfugla sem koma til Íslands nær augum fuglaskoðara, og ókannað landflæmi er mikið, gæti þetta að sjálfsögðu auðveldlega hafa átt sér stað, að turtil- og tyrkjadúfa hafi ruglað saman reytum. En það þarf ekki að hafa verið.

Umrædd blendingsdúfa hélt sig á Siglufirði í þrjá daga og hvarf svo. Hún var ómerkt og stygg, flaug upp í tré um leið og hún sá til mannaferða.

Nýjustu fréttir eru þær að fimm dögum eftir að dúfan sást á Siglufirði og eftir að haft var samband við áðurnefndan írskan fuglafræðing var önnur svipuð blendingsdúfa mynduð í Bretlandi, þó ekki sami fugl. Það bendir eindregið til þess að um útlendan fugl hafi verið að ræða hér, að ungarnir hafi komið úr sama hreiðri og orðið viðskila á einhverjum tímapunkti og annar þeirra hrakist norður á Tröllaskaga.

Blendingsdúfan er svipuð og tyrkjadúfa á litinn, en hálsbletturinn er eins og á turtildúfu.

Hálsbletturinn í nærmynd.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]