Ormskríkja úr Vesturheimi

Í Morgunblaði dagsins, á bls. 4, er ljósmynd sem 15 ára Siglfirðingur, Mikael Sigurðsson, tók af afar sjaldséðum amerískum fugli, ormskríkju. Sú hefur undanfarna daga haldið til á Suðvesturlandi, nánar tiltekið við Reykjanesvita, eftir að einhver kröftug lægðin greip hana nýverið og feykti upp til Íslands. Fuglar þessarar tegundar eru 10–13 cm að stærð og 6,2–18,4 g að þyngd. Skríkjunnar varð fyrst vart á sunnudag, 8. september, þegar náðist af henni símamyndbandsupptaka. Einungis einu sinni áður hefur ormskríkja fundist hér á landi, það var 14. október 1956 á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Það var jafnframt fyrsta ormskríkja Evrópu.

Sumarheimkynnin eru í austanverðri Norður-Ameríku, stranda á milli í Kanada, allt norður undir 63. breiddargráðu, og suður í nyrstu ríki Bandaríkjanna, Maine, New York, Michigan og Minnesota. Vetrarstöðvar eru í löndunum frá Guatemala og austur til Vestur-Kólumbíu og Norður-Venezúela.

Mynd: Mikael Sigurðsson.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Fylgja: Úr Morgunblaði dagsins.