Opnunartónleikar Berjadaga


Berjadagar eru að hefjast. Á opnunartónleikum í Ólafsfjarðarkirkju kl. 20.00 í kvöld, sem bera yfirskriftina „Líttu sérhvert sólarlag“, munu koma fram Hlöðver Sigurðsson tenór, Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór, Elfa Dröfn Stefánsdóttir mezzósópran og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari.

Fluttir verða dúettar og dægurlög í bland við aríur. Verk eftir t.d. Bjarna Þorsteinsson, Sigfús Halldórsson, Ingibjörgu Þorbergs og aríur eftir Donizetti, Bizet o.fl.

Síðastliðið haust sló Hlöðver rækilega í gegn á fjölum Íslensku óperunnar í Evgení Ónegin. Bróðir hans, Þorsteinn Freyr, hefur síðustu ár starfað við óperuhúsið í Ulm í Þýskalandi og Elva Dröfn mun koma fram í gamanóperu Menottis sem frumsýnd verður á Akureyri í lok ágúst. Óþarfi er að kynna hinn hæfileikaríka tónlistarmann Bjarna Frímann sem verður meðleikari kvöldsins.

Bræðurnir frá Siglufirði vöktu mikla lukku er þeir komu síðast fram á Berjadögum og mæta nú til leiks með Elvu Dröfn í för. Þorsteinn verður einnig stórtenór á sviði Tjarnarborgar á viðburðinum „Tapas og tónlist“ á laugardag.

Á Berjadögum 2017 koma nánar tiltekið fram: Hlöðver Sigurðsson tenór, Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór, Bjarni Frímann Bjarnason píanó, Elfa Dröfn Stefánsdóttir mezzósópran, Hulda Jónsdóttir fiðla, Frédérique Friess sópran, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran, Margrét Hrafnsdóttir sópran, Sigrún Valgerður Gestsdóttir sópran, Þorvaldur Már Guðmundsson gítar, Ave Kara Sillaots harmónikka, Stelpurófan (rapparinn Þorgerður María), Ólöf Sigursveinsdóttir selló, Kvæðamannafélagið Ríma, Sigursveinn Magnússon píanó og aðstoð við framkvæmd, Ída Marguerite Semey kokkur og rekstraraðili í Kaffi Klöru, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og kynnir og María Bjarney Leifsdóttir, göngugarpur og kennari.

Hátíðin er styrkt af bæjarsjóði Fjallabyggðar, Tónlistarsjóði Rannís og fyrirtækjum í Fjallabyggð. Framkvæmdastjóri er Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari og tónlistarfréttamaður, kynningarfulltrúi Ása Fanney Gestsdóttir menningarstjórnandi og grafískur hönnuður Anna Giudice.

Sjá nánar hér.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is