Ómar og Gómar


Þúsundþjalasmiðurinn Ómar Ragnarsson heldur annað kvöld, 16. september, og á föstudagskvöld, 17. september, upp á 70 ára afmæli sitt og jafnframt það að hann hefur í 50 ár starfað sem skemmtikraftur, og verður húllumhæið í Salnum í Kópavogi.

Þar munu koma fram með honum ýmsir vinir og kunningjar, s.s. Ragnar Bjarnason, Þuríður Sigurðardóttir og meðlimir Sumargleðinnar, og síðast en ekki síst Gómarnir okkar flottu sem aðallega munu sjá um bakraddir að þessu sinni.

Varla þarf að taka fram að þetta er mikill heiður fyrir umræddan sönghóp og mjög svo ánægjulegt að sjá hann metinn þannig að verðleikum, þótt hann sé bara ?utan af landi?.

Sá á heldur betur eftir að koma áhorfendum í opna skjöldu.

Og auðvitað fer hljómsveitin góða, sem spilað hefur undir með þessum fágaða kvintett, líka með, enda ómissandi partur af þessu dæmi, með Sturlaug Kristjánsson í broddi fylkingar.

Uppselt er á báða tónleikana og kemur ekki á óvart.

Nánari upplýsingar er að finna á  heimasíðu Þórarins Hannessonar (http://toti7.123.is/), og þar á meðal þessar yndislegu setningar tvær, sem eru svo innilega sannar og lýsa afmælisbarninu einkar vel: ?Svo veit maður svo sem aldrei hvað gerist þegar Ómar er annarsvegar og mér þætti ekki ólíklegt að einhverjir fleiri dúkkuðu upp. Við skulum bara vona að það byrji ekki að gjósa því þá hefur hann engan tíma til að standa í svona löguðu.?

Gómarnir á sviði.

Talið frá vinstri: Friðfinnur Hauksson, Birgir Ingimarsson, Mundína Valdís Bjarnadóttir,

Björn Sveinsson og Þórarinn Hannesson.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is