Ökumenn beðnir um að sýna tillitsemi í Héðinsfjarðargöngum


Varla hefur það farið framhjá neinum
sem á leið um Héðinsfjarðargöngin að enn er verið að vinna í ljósum og
öðrum rafbúnaði, hér og þar. Undirrituðum lét forvitni á að vita hverju
þetta sætti og hafði því samband við Árna Pál Jóhannsson
framkvæmdastjóri hjá Rafmönnum á Akureyri, en þeir hafa séð um þennan
þátt, enda helstu sérfræðingar landsins í raflögnum í jarðgöng. 

?Svona í stuttu máli,? sagði Árni Páll, ?þá er það þannig að í
jarðgangnagerð er rafmagnsþátturinn mjög háður framvindu við borun og
vegagerð og er sá verkliður sem klárast síðast. Við erum því síðasta
holl sem yfirgefur verkstað, ef svo má að orði komast. Samt sem áður eru
það ákveðnir verkliðir eins og útdráttur á strengjum, stigauppsetning og
fleira sem var hægt að vinna við jafnhliða vegaframkvæmdum, en öll
uppsetning á búnaði, eins og ljósum, blásurum, ljósaskiltum á veggjum,
mengunarnemum og öðrum viðkæmum búnaði, gengur ekki nema búið sé að
malbika, vegna þeirra mengunar og ryks sem kemur við þann verklið. Við
erum því enn þarna að störfum, þrátt fyrir að búið sé að opna formlega,
vegna þeirra tafa sem urðu á öðrum verkliðum, eins og borun og fleiri
þáttum, en það stytti verktíma okkar um 50-60%, þar sem verkkaupi hélt
sig áður við umræddar opnunardagsetningu, 5. október, og var því ofurkapp
lagt á ákveðna verkþætti sem voru lýsing, fjarskipti (gsm-samband) og
blásarar, svo hægt væri að opna göngin fyrir umferð. Það var því unnið á
sólarhringsvöktum síðasta mánuðinn til að ljúka þessum verkliðum fyrir
opnun. Þannig að frá opnun höfum við verið að vinna í frágangi inni í
spennustöðvum, uppsetningu ljósa í öllum útskotum, ljósleiðaratengingum,
tengingu á neyðarskápum, að setja upp varaflsgjafa fyrir rafmagn, setja
upp mengunarnema og veðurstöð sem stýrir blásurum og þess háttar.
Flestum verkliðum ljúkum við að mestu um næstu mánaðamót en einhverjir
gætu dregist fram í desember.?

Þess má geta að umrætt verk er það stærsta sem Rafmenn hafa tekið sér
fyrir hendur. Og til fróðleiks má einnig nefna að Jóhann Kristján
Einarsson rafvirkjameistari og löggiltur rafverktaki, eigandi Rafmanna,
og Baldur Ragnars rafvirkjameistari og starfsmaður þar, lögðu allt
rafmagn í Múlagöngin á sínum tíma. Baldur var svo í Hvalfjarðargöngum,
Rafmenn lögðu allt rafmagn í göngin um Almannaskarð fyrir austan og
Héðinsfjarðargöng eru því fjórðu jarðgöngin sem Rafmenn og starfsmenn
þeirra koma að.

Til merkis um umfang þessa síðast talda verks má nefna að strengir eru
157,110  metrar, ídráttarrör 70,900 metrar, strengstigi 11,300 metrar,
raðtengi 2,232 talsins, ljós 980, stýriliðar 387, neyðarlampar 109,
stöðuskynjarar 95, merkjaljós 67, slökkvitæki 48 og neyðarsímar 23.

Árni Páll, framkvæmdastjóri Rafmanna, biður þá ökumenn sem fara um
göngin að sýna starfsmönnum þar tillitsemi og draga vel úr hraða, en
tekur jafnframt fram að langflestir geri það reyndar.

Einnig upplýsir hann að Rafmenn hafi sótt þjónustu til fjölmargra aðila í
Fjallabyggð og vill hann fá að nota tækifærið og færa þeim þakkir fyrir
liðlegheit og góða þjónustu.

Rafmenn eru enn að störfum í Héðinsfjarðargöngum

og eru ökumenn því beðnir um að sýna tillitsemi og draga úr hraða þar sem við á.

Myndin var tekin 17. nóvember síðast liðinn við munnann í Ólafsfirði.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is