Ókeypis mjöður í hádeginu


?Bruggsmiðjan á Árskógssandi í Eyjafirði framleiðir bjórinn Kalda sem hefur notið mikilla vinsælda frá því að hann kom fyrst á markað árið 2006. Nú hefur verið ákveðið að stækka brugghúsið um þriðjung og var fyrsta skóflustungan að stækkuninni tekin 23. mars síðastliðinn, eftir að skrifað hafði verið undir fjármögnunarsamning við Byr. Reiknað er með að framkvæmdum við stækkunina ljúki í júní og mun framleiðsluaukningin þá verða um 40%. Stefna fyrirtækisins hefur allt frá upphafi verið að framleiða gæða bjór þar sem einungis er notast við besta fáanlega hráefnið, sem flutt hefur verið inn frá Tékklandi, auk íslensks vatns. Þessi afrakstur fyrirtækisins hefur verið svo vinsæll hjá íslenskum bjórneytendum, að verksmiðjan hefur ekki annað eftirspurn og því hefur verið ákveðið að ráðast í stækkun brugghússins á Árskógssandi,? sagði Timinn.is í fyrradag.

Vegna þessara tímamóta og góða árangurs og eins hins að hinum vinsæla spurningaþætti á RÚV, Útsvari, lýkur í kvöld – en þá eigast við Akureyri og Norðurþing og verður sent út beint úr menningarhúsinu Hofi á Akureyri – hyggst Bruggsmiðjan bjóða íbúum á Norðausturlandi upp á ókeypis Kalda, einn kassa á mann (sex flöskur), og er hægt að nálgast varninginn í útibúi ÁTVR hér. Siglfirðingur.is hefur ekki upplýsingar um hvernig þessu verður háttað annars staðar.

Um er að ræða framleiðslu sem er komin á síðasta söludag, en eins og flestir vita eru engin rotvarnarefni í þessari eðalbjórtegund og því erfitt að geyma hana lengi. En vegna þess að um takmarkað magn er að ræða, og til að koma í veg fyrir að fólk misnoti þetta og komi oft yfir daginn, hefur verið ákveðið að afhending fari fram í hádeginu, þ.e.a.s. frá kl. 12.00-13.00, og bara þá, til að yfirsýn verði betri, og klárist þetta ekki verður restinni fargað.

Þetta þýðir reyndar að opna verður fyrr en vanalega á Siglufirði, en í tilefni dagsins ætlar starfsfólk að gera þessa undantekningu núna. Það er nefnilega ekki alltaf sem tvö norðanlið keppa til úrslita í svona hugarleikfimi. Þetta er kallað að standa saman. 

 

Flott hjá Bruggsmiðjunni.

En sumsé: Fyrstir koma, fyrstir fá.

Ekki er víst að allir nái að krækja sér í þessa veig

þótt ekki kunni að vanta áhugann,

því framboðið er takmarkað.

Mynd: Aðsend.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is