Og enn bætist við


Enn bætist við listann sem var tilefni fréttar hér á vefnum í gær og hefur að gera með afreksfólk í íþróttum sem tengist Siglufirði, því ung stúlka, Anna María Steingrímsdóttir, fædd 1999, hefur undanfarin ár verið að brillera í hópfimleikum. Hún stundar hópfimleika með Stjörnunni og hefur orðið Norðurlanda-, Íslands- og bikarmeistari með stúlkna- og kvennaliði félagsins. Árið 2016 var hún í stúlknaliði Íslands sem var Evrópumeistari í Slóveníu.

Um síðustu helgi fór aukinheldur fram Evrópumeistaramót í hópfimleikum í Portúgal og var Anna María í blönduðu liði Íslands í fullorðinsflokki sem hlaut þar bronsverðlaun.

Foreldrar hennar eru Kolbrún Jónsdóttir og Steingrímur Sigfússon, en hann er sonur Sædísar Eiríksdóttur (f. 1944) og Sigfúsar Magnúsar Steingrímssonar (f. 1942, d. 2005). Þess má geta til viðbótar að afi Önnu Maríu í móðurætt var Jón Rafn Jóhannsson kortagerðamaður en hann var fæddur á Siglufirði og lést í vor, 72 ára að aldri. Jón var eitt fimm barna Jóhanns Byström Jónssonar og Guðnýjar Kristjánsdóttur sem bjuggu við Vetrarbraut á Siglufirði. Eitt systkinanna var Esther kona Skarphéðins Guðmundssonar kaupfélagsstjóra á Siglufirði.

Anna María Steingrímsdóttir.

Stúlknalandslið Íslands 2016. Anna María fyrir miðju í efri röð. Þetta ár urðu stúlkurnar Evrópumeistarar.

Norðurlandameistarar unglinga 2016. Anna María er lengst til vinstri.

Meistaraflokkur Stjörnunnar. Norðurlandameistaratitill fullorðinna 2017.

Lið ársins 2017, meistaraflokkur kvenna hjá Stjörnunni. Liðið er bikarmeistari og Íslandsmeistari á gólfi og trampólíni en nafnbótina hlaut það aðallega fyrir frammistöðuna á Norðurlandamótinu í Svíþjóð, þar sem það varði Norðurlandameistaratitilinn með glæsibrag.

Norðurlandameistarar 2017, Stjarnan. Anna María er fimmta í röð frá hægri.

Landslið blandaðs liðs Íslands á Evrópumótinu í Portugal nýverið. Anna María Steingrímsdóttir er fyrir miðju.

Landslið blandaðs liðs Íslands, bronshafi, Portúgal 2018. Anna María er önnur frá vinstri.

Anna María hlaðin verðlaunum.

Myndir: Aðsendar.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]