Ofurtröllamótið um helgina


Nú styttist í Super Troll Ski Race fjallaskíðamótið, eða Ofurtröllið eins og það er gjarnan nefnt á íslensku, en það verður haldið í fimmta sinn um komandi helgi. Veðurspáin er góð og ekki vantar snjóinn. Og það stefnir í metþátttöku. Morgunblaðið birti í dag af þessu tilefni viðtal við Sig­ríði Vig­fús­dótt­ur, en hún er ein af þeim sem skipu­leggja mótið. Sjá hér fyrir neðan.

 

Mót sem varð til við eldhúsborð á Sigló

„Þetta á upphaf sitt í því að fyrir rúmum fimm árum vorum við að leita leiða til að styrkja barnastarfið hjá skíðafélaginu á Siglufirði, en dóttir okkar var að æfa þar. Rúnar maðurinn minn fékk þá þessa hugmynd að halda fjallaskíðamót og bar hana undir Orra Vigfússon heitinn, Siglfirðing og athafnamann, sem var með miklar taugar til Siglufjarðar. Rúnar hringdi í hann á föstudagsmorgni og Orri var kominn norður á laugardagsmorgni í kaffi til okkar á Siglufirði. Það var slíkur hugur í mönnum. Þarna við eldhúsborðið heima á Suðurgötunni varð mótið til, og strax voru gerð drög að því. Með okkur hafa alla tíð starfað stjórn skíðafélagsins og síðustu ár sérstök mótsstjórn sem hefur tekið að sér að skipuleggja mótið,“ segir Sigríður Vigfúsdóttir, en hún er ein af þeim sem skipuleggja Ofurtrölla-fjallaskíðamótið á Tröllaskaga sem fram fer í fimmta sinn á Siglufirði um næstu helgi, eða Super Troll Ski Race, eins og það heitir á ensku, en mótið er alþjóðlegt.

Sigríður segir að á fyrsta mótið árið 2014 hafi ekki komið margir, og fáir útlendingar. „Þetta voru innan við tuttugu manns í byrjun, en þetta hefur vaxið hratt og núna er þetta að springa út. Það eru komnar yfir sjötíu skráningar fyrir næstu helgi og um tuttugu prósent af þeim eru útlendingar. Tröllaskaginn hefur stimplað sig inn sem fjallaskíðaparadís, sérstaklega fyrir erlent skíðafólk. Á þessum árstíma eru í hverri viku um fjögur hundruð erlendir ferðamenn á Tröllaskaga að skíða um fjöllin, bæði í þyrluskíðun og að ganga sjálfir upp. Hluti af þessu hefur sannarlega skilað sér á Ofurtröllamótið. Ferðamenn koma líka í gegnum íslenskar ferðaskrifstofur, til dæmis einn af stuðningsaðilum mótsins, Arctic Heli Skiing, en þeir eru orðnir risastórir og bjóða líka ferðir til Grænlands og Japans,“ segir Sigríður og bætir við að það sé ákveðinn hópur ferðamanna sem sækist eftir þessari tegund skíðamennsku.

„Eftirspurn eftir fjallaskíðamennsku eykst mjög hratt. Fólk þarf að hafa fyrir hlutunum, setja þarf skinn undir skíðin til að ganga upp fjallið, en svo eru skinnin tekin af þegar upp er komið og fólk skíðar niður í miklu frjálsræði. Erlent skíðafólk segir að það sem sé svo heillandi við Tröllaskagann sé meðal annars þessi bröttu fjöll og mikli snjór langt fram á sumar, og hversu einstakt það sé að geta farið upp á fjallstopp og skíðað nánast niður að fjöruborðinu. Að sjá til hafs á leiðinni, vera með hafið í fanginu meðan brunað er niður. Þetta eru sérstakar og heillandi aðstæður.“

Sigríður tekur fram að fjallaskíðamennska sé fyrir fólk á öllum aldri.

„Þetta er fjölskylduíþrótt og við erum núna í fyrsta skipti með tvær leiðir í boði fyrir þátttakendur, önnur er létt leið fyrir alla, Hálftröllið, hún er átta kílómetrar og hækkunin 780 metrar og lækkun 920 metrar, en hin leiðin er erfiðari, Ofurtrölið, fimmtán kílómetrar fyrir ofurhugana, þá sem eru lengra komnir, en þar er hækkunin 1.280 metrar og lækkunin 1.100 metrar.“

Gulli Helga ætlar að kynna og keppa líka sjálfur

Sigríður segir að í Siglufjarðarbæ myndist mikil stemning helgina sem Ofurtröllamótið er.

„Ef það koma áttatíu keppendur þá koma fjölskyldur með þeim, svo fjölgunin á mannfólki í bænum er mikil, kannski hundrað og fimmtíu manns. Dagskráin byrjar strax á föstudegi, þá hittast keppendur og farið er yfir búnað, því það þarf eðli málsins samkvæmt að gæta fyllsta öryggis. Þetta hefur alltaf gengið vel og hjálparsveitin er í samstarfi með okkur og sér um öryggisgæslu,“ segir Sigríður og bætir við að Tómas Guðbjartsson hjartalæknir og útivistarmaður hafi ævinlega verið verndari mótsins, nú sem áður.

„Það er frábært að hafa hann með á þessu móti, hann er skemmtilegur og mikil stemning í kringum hann. Það er heilmikið skemmtilegt í kringum mótið; „apre-ski“ á hótelinu, matsölustaðir og pöbbar með lifandi tónlist og fleira. Þetta árið ætlar Gulli Helga að vera kynnir á verðlaunaafhendingunni og á hátíðarkvöldverðinum, en hann ætlar líka að keppa.“

Sigríður segir krakkana í skíðafélagi Siglufjarðar leggja sitt af mörkum, þau vinni við mótið, hin ýmsu sjálfboðastörf. Þau sjá meðal annars um drykkjarstöðvar fyrir keppendur og standa sína vakt uppi í fjalli.

„Allir taka þátt í mótinu með einum eða öðrum hætti, bæði foreldrar og iðkendur. Allur ágóði fer til barna- og unglingastarfsins hjá Skíðafélagi Siglufjarðar, svo þátttakendur leggja góðu málefni lið með því að koma og njóta,“ segir Sigríður og tekur fram að hægt sé að skrá sig á mótið fram á síðustu stundu.

 

Mynd og auglýsingaveggspjald: Aðsent.
Viðtal: Morgunblaðið / Kristín Heiða Kristinsdóttir | khk@mbl.is.

Annar texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is