Ofanflóðasjóður lokar á Siglufjörð


„Ofanflóðasjóður telur sig ekki geta komið frekar að kostnaði við viðgerðir á tveimur götum norðarlega í Fjallabyggð vegna flóða sem urðu á Siglufirði þann 28. ágúst í fyrra. Bæjarráð Fjallabyggðar er ósátt við afgreiðslu Ofanflóðasjóðs og fól bæjarstjóra, Gunnari Birgissyni, að rita bréf til Ofanflóðanefndar vegna málsins. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Fjallabyggðar.“

Vísir.is greindi frá þessu í köld.

Og áfram:

„Ofanflóðanefnd telur ekki forsendur vera til frekari aðkomu að kostnaði vegna viðgerða vegna tjóns sem varð á Hólavegi og Fossvegi á Siglufirði, umfram 9.1 milljón,“ segir í bréfi Ofanflóðanefndar. Einnig óskar nefndin í bréfinu eftir gögnum um vinnu við hreinsun sunnarlega á Siglufirði áður en afstaða yrði tekin til þess hvort Ofanflóðanefnd ætlaði sér að taka þátt í kostnaði við þau verk.

Þann 28. ágúst flæddi Hvanneyrará yfir bakka sína. Venjulega er hún sem lítill lækur í gegnum Siglufjörð norðarlega í bænum. Hinsvegar óx hún svo mjög frá morgninum að varð hún sem beljandi stórfljót um miðjan dag. Veðurathugunarstöðin á Sauðanesi í Almenningum sýndi að morgni föstudagsins 28. ágúst, úrkomu upp á 114,7 mm, sem er gríðarlega mikil úrkoma. Sólarhringnum áður hafði fallið 41 mm svo mikið vatn var til staðar í fjöllum fyrir ofan Siglufjörð þegar Hvanneyraráin breiddi úr sér.

Loforð forsætisráðherra

Bæjarráð Fjallabyggðar er að vonum ósátt með niðurstöðu Ofanflóðanefndar. Vilja þau ná lendingu í málinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra mætti til Siglufjarðar fljótlega eftir flóðin til að virða fyrir sér hamfarasvæðið. Í viðtali við Fréttablaðið þremur dögum eftir hamfarirnar hafði hann þetta að segja um það hvernig ríkið gæti komið að því að styðja við bakið áheimamönnum í því verkefni að koma Siglufirði í samt lag.

„Við þurfum í sameiningu, heimamenn og stjórnvöld, að vinna saman að því að leysa úr málum. Eitthvað fellur utan viðlagatrygginga og það þarf að meta það hvort ekki sé hægt að finna lausn á því að bæta það og svo í framhaldinu að skoða hvort ekki þurfi að huga að innviðauppbyggingu. Stjórnvöld þurfi að skoða meðal annars hvort ofanflóðasjóður hafi hlutverki að gegna í þessum aðstæðum,“ sagði Sigmundur Davíð þann 31. ágúst síðastliðinn.“

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Vísir.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is