Ófærð frumsýnd á RÚV 27. desember


Ófærð er ný, íslensk glæpaþáttasería úr smiðju Baltasars Kormáks sem frumsýnd verður á RÚV. Fyrsti þáttur er á dagskrá þann 27. desember næstkomandi kl. 21.00. Beðið er með mikilli eftirvæntingu eftir þáttaröðinni sem er ein umfangsmesta sjónvarpsþáttagerð sem ráðist hefur verið í hérlendis. Hún var að stórum hluta tekin upp á Siglufirði.

Þættirnir eru tíu talsins og byggðir á hugmynd þeirra Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, sem fór fyrir handritshöfundateyminu. Þeir verða sýndir á besta tíma á RÚV á sunnudagskvöldum út febrúar 2016.

Útlima- og hauslaus mannsbúkur finnst í ónefndu, íslensku sjávarþorpi sem er að lokast frá umheiminum vegna veðurs. Hið fámenna lögreglulið bæjarins  hefur rannsókn á meðan sérfræðingarnir fyrir sunnan sitja fastir í Reykjavík. Líklega er morðinginn í bænum – og hann kemst hvergi.

Leikstjórar þáttanna eru fjórir – Baltasar Kormákur, Baldvin Z, Óskar Þór Axelsson, Börkur Sigþórsson. Með aðalhlutverk fara Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Bjarne Henriksen og Nína Dögg Filippusdóttir. Tónlistina semur Golden Globe verðlaunahafinn Jóhann Jóhannsson.

Framleiðslufyrirtækið RVK Studios stendur að gerð þáttanna en þeir eru unnir í samvinnu við RÚV, ZDF, France Télévisions, BBC, DR o.fl.

Þættirnir hafa verið seldir til margra landa og hefjast sýningar á öðrum stöðvum fljótlega eftir frumsýningu á RÚV. Fyrsti þátturinn hefur verið forsýndur á virtum kvikmyndahátíðum, þeirra á meðal eru Series Series, TIFF, RIFF, Are you series? Brussel og Rome Film Festival.

Meðal sjónvarpsstöðva, sem sýna þættina, eru allar norrænu ríkisstöðvarnar (DR, SVT, NRK,YLE5). ZDF, FRANCE Television, BBC og TWC (The Weinstein Company) hafa einnig tryggt sér sýningarrétt. Ófærð verður fyrsta íslenska dramaþáttaröðin sem sýnd verður á BBC 4, en áður hefur Næturvaktin verið sýnd á sömu stöð. Ófærð er einnig fyrsta íslenska sjónvarpsþáttaröðin sem hefur verið keypt til sýningar í Bandaríkjunum. The Weinstein Company var stofnað af Bob og Harvey Weinstein, bræðrunum sem stofnuðu Miramax kvikmyndafyrirtækið árið 1979.

Fjölmiðlafólki, ljósmyndurum og fleirum hefur verið boðið á forsýningu á tveimur fyrstu þáttum Ófærðar í dag kl 17.00 í Bíó Paradís í Reykjavík.

Hér má sjá 1 mínútu stiklu og hér 3 mínútna stiklu.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is