Oddur Arnþór með tónleika


Oddur Arnþór Jónsson verður með tónleika í Hofi á Akureyri 1. nóvember og í Salnum í Kópavogi 5. nóvember. Þar syngur hann Vetrarferðina eftir Franz Schubert. Undirleikari verður Somi Kim, píanisti.

Faðir söngvarans er Jón Gunnar Pálsson, fæddur 1949 og alinn upp við Þormóðsgötuna á Siglufirði, sonur Páls Pálssonar skipstjóra úr Héðinsfirði og Herdísar Guðmundsdóttur skáldkonu.

Oddur Arnþór er fæddur árið 1983. Móðir hans er Sigþóra Guðrún Oddsdóttir.

Oddur Arnþór lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg, Austurríki. Hann hlaut Lilli Lehmann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf. Oddur var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir hlutverk sitt í Don Carlo árið 2014, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni. Hann var tilnefndur sem söngvari ársins 2014, 2015 og 2016 fyrir hlutverk sín í Don Carlo, Rakaranum í Sevilla, Don Giovanni og Solomon á Kirkjulistahátíð. Sem ljóðasöngvari hefur hann meðal annars flutt Schwanengesang á Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni og Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París. Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninni í Barcelona. Hann sigraði Brahms keppnina í Pörtschach í Austurríki og hlaut þriðju verðlaun í Schubert keppninni í Dortmund, Þýskalandi.

Sjá líka hér.

Mynd: Ernir Eyjólfsson | ernir@365.is. Birt með góðfúslegu leyfi.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is / Salurinn.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is